Leiðtogi Búrma segist tilbúinn að eiga fund með Suu Kyi

Hermenn á verði á götum Yangon í Búrma í dag.
Hermenn á verði á götum Yangon í Búrma í dag. AP

Than Shwe, leiðtogi herforingjastjórnarinnar í Búrma, sagði Ibrahim Gambari, sendimanni Sameinuðu þjóðanna, að hann ætlaði sjálfur að eiga fund með Aung San Suu Kyi, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í landinu, svo framarlega sem ákveðin skilyrði verða uppfyllt. Ríkisfjölmiðlar í Búrma skýrðu frá þessu í dag.

Þá kom einnig fram í fréttum ríkissjónvarps Búrma, að 2093 manns hefðu verið handtekin frá 25. september til dagsins í dag vegna mótmælaaðgerða í stærstu borgum landsins. 692 hefði þegar verið sleppt aftur en handtökurnar hefðu verið í samræmi við lög sem banna fólki að safnast saman.

Yfirlýsingu Than Shwe er ætlað að sýna fram á, að herforingjastjórnin sé ekki jafn ósveigjan þegar og vestrænir fjölmiðlar vilji vera láta og vilji bregðast við mótmælaöldunni, sem farið hefur yfir Búrma undanfarnar vikur. Verði af fundi hershöfðingjans og Suu Kyi yrði það í fyrsta skipti í fimm ár, sem háttsettur herforingi ræðir við stjórnarandstöðuleiðtogann.

Than Shwe sagði við Gambari, að hann setti þau skilyrði fyrir fundinum að Suu Kyi hætti að hvetja til andstöðu gegn stjórnvöldum og að önnur ríki grípi til refsiaðgerða gegn Búrma. sagði Than Shwe, að Suu Kyi, sem verið hefur í stofufangelsi á annan áratug, hefði á undanförnum árum hvatt til átaka, eyðileggingar, efnahagsþvingana og annarra refsiaðgerða.

Þetta er í fyrsta skipti sem Than Shwe lýsir því yfir að hann sé tilbúinn að hitta Suu Kyi. Það þykir merkilegt í ljósi þess, að hershöfðinginn er sagður fyrirlíta Suu Kyi og umhverfist af reiði ef minnst er á hana í návist hans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert