Umhverfis og náttúrusamtök Þingeyjarsýsla stofnuð á Húsavík

Sigurjón Benediktsson, Hörður Sigurbjarnarson og Örlygur Hnefill Jónsson skipa undirbúningsnefnd …
Sigurjón Benediktsson, Hörður Sigurbjarnarson og Örlygur Hnefill Jónsson skipa undirbúningsnefnd sem vinnur að formlegri stofnun SNUÞ. mbl.is/Hafþór

Samþykkt var á fjölmennum fundi á Húsavík síðdegis í dag að stofna umhverfis og náttúrusamtök Þingeyjarsýsla með það að sjónarmiði að koma viðhorfum heimamanna til náttúru, verndar og umhverfis, milliliðalaust til skila. Um það bil 100 manns voru á fundinum sem haldinn var á Gamla Bauk og rituðu tæplega sextíu manns sig sem stofnfélaga samtakanna.

Á fundinum fluttu Edvard Guðnason frá Landsvirkjun og Jóhannes Hauksson frá Glitni erindi um aðkomu sinna fyrirtækja að nýtingu jarðvarma og framtíðarhorfum orkunýtingar í Þingeyjarsýslum. Loks steig Halldór Blöndal í ræðustól og flutti þrumandi ræðu um orku og atvinnumál sem vakti heimamenn til umhugsunar um málið frá nýjum sjónarhól. Fundurinn þótti fjörugur og skemmtilegur og sýna samstöðu og hug Þingeyinga.

Umhverfissamtökin SNUÞ (samtök um náttúru og umhverfi í Þingeyjarsýslum) verða formlega stofnuð á aðalfundi sem boðaður verður á næstunni og voru þeir Sigurjón Benediktsson, Hörður Sigurbjarnarson og Örlygur Hnefill Jónsson skipaðir í undirbúningsnefnd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert