Friðarsúlan lýsir upp Viðeyjarsund

Listakonan Yoko Ono, ekkja Johns Lennons, sagði á blaðamannafundi í dag að hún vonaðist til þess að ljóssúlan í Viðey verði tákn, krafts, visku og ástar og að hún verði sameiningartákn þeirra sem vilji leggja sitt að mörkum til heimsfriðar með hljóðlátum hætti.

Yoko sagði þetta vera flókna tíma og þó að mikilvægt sé að fólk setji fram friðaróskir sínar á opinberum vettvangi sé einnig mikilvægt að það finni hljóðlátari leiðir til þess með sjálfu sér.

Í því sambandi geti ljósasúlan orðið einhvers konar hljóðlátt sameiningartákn þeirra sem vilja stuðla að friði með innhverfri íhugun.

Stefnt er að því að kveikt verði á súlunni árlega á þessum degi, sem er fæðingardagur Johns heitins Lennons og látið loga á henni til 8. desember, sem er dánardagur hans.

Einnig verður kveikt á ljóssúlunni á gamlárskvöld, fyrstu viku vorsins og við sérstök tækifæri sem listamaðurinn og Reykjavíkurborg samþykkja að séu við hæfi.

Yoko Ono sagði fyrr í dag að hún væri sannfærð um að John hefði orðið ánægður með súluna. Hún sagðist reyndar telja að hann væri það, þar sem hann er nú.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert