Segir borgarbúa geta orðið af allt að 50 milljörðum króna

Dagur B. Eggertsson.
Dagur B. Eggertsson. mbl.is/Kristinn

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn Reykjavíkur, segir að sú þrautalending borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins að ætla að selja hlut Orkuveitunnar í Reykjavik Invest sé fráleit. Hún feli í sér, að borgarbúar og eigendur Orkuveitunnar verði af þeirri margföldun í verðgildi fyrirtækisins sem spáð hefur verið á næstu árum. Upphæðin sem borgarbúar yrðu af gæti numið allt að 50 milljörðum króna.

Dagur segir í pistli, að því miður væri þetta þó allt of kunnuglegt. Þjóðin hafi horft upp á bankana, sem seldir voru á 12 milljarða, 50–100 faldast í verði fyrir augunum á sér.

Salan á REI þýði þó einnig að málefni Hitaveitu Suðurnesja séu í algjöru uppnámi þar sem REI eigi 48% hlut í Hitaveitu Suðurnesja. Gangi þetta eftir verði einkavæðing auðlindanna suður með sjó því orðin að veruleika án þess að það hafi nokkurs staðar verið rætt eða ákveðið.

Þá segir Dagur, að undanfarna daga hafi fjölmargir spurt sig hvers vegna einstaka aðilar hafi fengið að kaupa hluti í REI en aðrir ekki. Ef hlutur Orkuveitunnar í fyrirtækinu verði seldur nú liggi fyrir, að þessir sömu aðilar fengju forkaupsrétt í félaginu. Í milljónum og milljörðum talið væru þeir samningar meira en tuttugufaldir á við þá sem gerðir voru bak við luktar dyr á fyrri stigum þessa dæmalausa máls.

Fulltrúar minnihlutans í borgarstjórn ganga nú 13.15 á fund forseta borgarstjórnar til að krefjast aukafundar í borgarstjórn vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert