VG á Akranesi sendir frá sér yfirlýsingu vegna OR

Vinstrihreyfingin – grænt framboð á Akranesi hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem flokkurinn mótmælir harðlega þeim ólýðræðislegu vinnubrögðum sem viðgengist hafi innan Orkuveitu Reykjavíkur og almenningur hafi orðið vitni að síðustu daga og vikur.

Í fréttatilkynningu segir að greinilegt sé að Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki liggi svo mikið á að framselja eignir almennings í hendur örfárra auðmanna að það sé ekki ráðrúm til að stunda lýðræðisleg vinnubrögð. Allt stefni þetta í þá átt að markaðsvæða orkugeirann eins og samþykktir Sjálfstæðisflokksins kveða á um, en ferlið virðist ekki þola dagsljós hvað þá heilbrigð skoðanaskipti.

Þess í stað virðist græðgi ráða för þar sem einstaklingar maki krókinn í ferlinu. Mýmörgum spurningum sé enn ósvarað, en eigendur Orkuveitunnar, sem eru íbúar Reykjavíkur, Akraness og Borgarbyggðar, eigi skýlausa kröfu um upplýsta umræðu og aðgengileg svör. Vinstrihreyfingin – grænt framboð á Akranesi skorar á bæjarstjórn að gæta hagsmuna bæjarbúa og almennings alls og standa vörð um grunnþjónustuna og samfélagslegar eignir gegn óheftri græðgisvæðingu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert