Yoko Ono: Vonast til að börn finni huggun í ljósinu

Kveikt verður á ljósasúlunni í Viðey við hátíðlega athöfn í kvöld. Yoko Ono kvaðst vera taugaóstyrk en jafnframt mjög glöð er hún kynnti verkið og hugmyndafræðina á bak við það á blaðamannafundi í Listasafni Reykjavíkur í dag.

Sagði hún þrjú ár vera frá því hún ákvað að reisa verkið hér á landi og margar ástæður hafi legið að baki þeirri ákvörðun. Ein þeirra sé sú að í mörgum trúarbrögðum komi krafturinn úr norðri og hún hafi viljað virkja þann kraft í þágu friðar. Þá gefi hreinleiki Íslands landinu sérstöðu og hún telji sterk tengsl vera á milli friðar og heilbrigðis.

Yoko sagði verkið vera sprottið úr hugmyndunum um friðarljós og þeirri hugmynd sinni að reisa súlu úr þeim friðartáknum sem henni hafi áskotnast í gegn um tíðina. Þá vonist hún sérstaklega til þess að börn, sem hafi áhyggjur af ástandi heimsmálanna, finni huggun í ljósinu. Þau geti hugsað um hana í örvæntingu sinni og viti þá að þau séu ekki ein.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert