Björn Ingi: Kauprétturinn var mistök

Björn Ingi Hrafnsson.
Björn Ingi Hrafnsson.

Björn Ingi Hrafnsson, formaður borgarráðs, sagði á aukafundi borgarstjórnar Reykjavíkur í dag, að boð Geysis Green Energy um að fyrirtækið sameinaðist Reykjavik Energy Invest hafi komið honum á óvart. Hins vegar væri hann sannfærður um, að í þessum samruna felist gríðarleg tækifæri, m.a. vegna þess að möguleikar væru á að Enex kæmi inn í samstarfið og breikkaði það.

Björn Ingi er varaformaður Orkuveitu Reykjavíkur, sem átti Reykjavik Energy Invest að fullu fyrir sameininguna.

Björn Ingi sagði, að hugmyndin um að starfsfólk REI fengi að kaupa hlutabréf í sameinuðu félagi hefði ekki dottið niður úr himnum. Upphaflega hefði staðið til að sameina Geysi Green, Enex og REI og í fyrstnefndu fyrirtækjunum hafi starfsmenn þessi réttindi. Því hafi Orkuveitumenn óttast, að lykilstarfsmenn REI myndu sitja á hakanum og hugsanlega fara annað ef þeir fengju ekki svipuð réttindi.

Björn Ingi sagði, að hugsunin hefði verið einlæg og snúist um hagsmuni samfélagsins og starfsfólks REI. Miðað við viðbrögð samfélagsins við kaupréttarsamningunum hefðu þetta þó augljóslega verið mistök og á þeim sagðist Björn Ingi biðjast afsökunar enda hefði kauprétturinn verið dreginn til baka.

Varðandi eigendafund Orkuveitu Reykjavíkur, sem boðað var til með innan við sólarhrings fyrirvara, sagði Björn Ingi, að bæði Hjörleifur Kvaran, forstjóri Orkuveitunnar og fyrrum borgarlögmaður, og Helgi Jóhannesson, lögmaður sem var fundarstjóri á fundinum, hefðu tekið fram að ekki hefði verið boðað til eigendafundarins í samræmi við eigendasamþykktir. Fundurinn væri hins vegar löglegur þar sem fulltrúar eigenda hefðu ekki gert athugasemdir.

Svandís Svavarsdóttir, fulltrúi VG í stjórn Orkuveitunnar, hefur lýst því yfir að hún ætli að skjóta lögmæti fundarins til dómstóla. Björn Ingi sagðist ekkert hafa á móti því og sagðist raunar ætla að leita álits borgarlögmanns á því, hvort skynsamlegt sé að boða aftur til eigendafundar og taka þar fyrir samruna orkufyrirtækjanna tveggja. Sagðist Björn Ingi hafa svo mikla sannfæringu fyrir því, að samruninn sé góður, að hann efaðist ekki um að niðurstaðan verði sú sama og á fyrri fundinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert