Níu af hverjum tíu starfsmönnum Orkuveitunnar kaupa í REI

Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur
Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur mbl.is/Þorkell

569 starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur skráðu sig fyrir kaupum á hlutafé í Reykjavik Energy Invest. Frestur til skráningar rann út í dag. Starfsfólk er 658 talsins og munu því 86% þess eignast hlut í REI, segir í fréttatilkynningu frá Orkuveitunni nú síðdegis.

Þar segir ennfremur:

Í kjölfar erindis frá Starfsmannafélagi Orkuveitu Reykjavíkur (STOR) ákvað stjórn Reykjavik Energy Invest að bjóða starfsmönnum Orkuveitunnar að kaupa hluti í félaginu fyrir 130 milljónir króna að nafnvirði á genginu 1,278. Ein af mikilvægari eignum Reykjavik Energy Invest er samningur við Orkuveituna um aðgang að þekkingu og samböndum fyrirtækisins sem og afnot af vörumerki þess. Yfirlýst markmið stjórnar REI með tilboði sínu til starfsmanna var að tryggja enn frekar gott samstarf fyrirtækjanna.

Tilboðið til starfsmanna stóð í viku og rann út í dag. Hverjum starfsmanni bauðst að kaupa hlut fyrir 300 þúsund krónur að nafnvirði. Samtals skráðu starfsmenn sig fyrir 167,9 milljónum króna. Á fundi sem forsvarsmenn Orkuveitunnar og Reykjavik Energy Invest áttu með starfsmönnum í dag kom fram að stjórn Reykjavik Energy Invest muni fjalla um niðurstöðuna á næsta fundi sínum og ákveða hvort hámarkshlutur verði hækkaður í samræmi við eftirspurn eða hvort hlutur hvers starfsmanns verður skertur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert