Umboðsmaður Alþingis óskar upplýsinga um REI

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis.
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis. mbl.is/Eggert

Fram kom á aukafundi borgarstjórnar Reykjavíkur um málefni Reykjavik Energy Invest, að umboðsmaður Alþingis hefur sent borgarstjórn Reykjavíkur og bæjarstjórnum Akraness og Borgarbyggðar 12 spurningar sem snúa að samruna REI og Geysis Green Energy. Vill umboðsmaður leggja mat á hvort tilefni sé til að hann taki málið upp að eigin frumkvæði.

Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi VG, upplýsti á borgarstjórnarfundinum að spurningalistinn hefði borist frá umboðsmanni.

Umboðsmaður vill m.a. vita hvort stofnun REI hafi verið samþykkt á eigendafundi Orkuveitunnar og hverjir hafi greitt atkvæði í umboði sveitarfélaganna þriggja. Þá er spurt hvaða eignir Orkuveitunnar hafi verið lagðar til REI við stofnun þess og hvert hlutafé þess hafi verið.

Umboðsmaður spyr hvort hlutirnir, sem Bjarni Ármannsson, stjórnarformaður REI, keypti í REI fyrir mánuði að andvirði fimm hundruð milljóna króna, hafi áður verið í eigu Orkuveitunnar. Einnig hvort þessi kaup hafi verið samþykkt á eigendafundi. Umboðsmaður vill afrit frá eigendafundinum af samþykkt fulltrúa sveitarfélaganna á sölu á hlutum í REI til einstaklinga og spyr hvort þeir hlutir hafi áður verið í eigu Orkuveitunnar.

Þá spyr umboðsmaður borgar- og bæjarstjóra sveitarfélaganna þriggja hvort þeir geti án sérstakrar heimildar frá sveitarstjórn samþykkt að selja einkaaðilum hluti í félögum sem eru í eigu Orkuveitunnar eða aðrar eignir OR, þar með talið að sameina við hlutafélag í eigu annarra. Hafi heimildin ekki verið fengin vill umboðsmaður vita á hvaða lagagrundvelli borgar- og bæjarstjórarnir geti samþykkt þetta.

Umboðsmaður spyr einnig hvernig jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, sem gildi þegar opinberum eigum er ráðstafað, hafi verið gætt. Þá spyr umboðsmaður hvort óháður aðili hafi metið verðmæti eigna Orkuveitunnar. Loks spyr umboðsmaður um hæfisreglur borgar- og bæjarstjóra til þátttöku í ákvörðunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert