Orkulindir í samfélagslegri eigu verða það áfram

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, sagði á Alþingi í dag, að hann sé með frumvarp í smíðum, sem komi ákveðinni reglu á orkumarkaðinn. Þar verður skilið á milli samkeppnisreksturs og sérleyfisþáttar. Þá verður sérleyfisþátturinn að meirihluta í félagslegri eigu, með vatnsveitulögin að fordæmi. Loks er gert ráð fyrir, að orkulindir, sem nú eru í samfélagslegri forsjá, verði það áfram.

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, tók málefni orkufyrirtækja upp í byrjun þingfundar og sagði m.a. að öll virkjanaréttindi Hitaveitu Suðurnesja kunni að verða komin í einkaeigu innan skamms. Spurði hann Samfylkinguna hvort flokkurinn ætlaði að láta þetta gerast og leyfa Sjálfstæðisflokkum að einkavæða orkulindir Íslands.

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, sagði að margir hefðu velt því fyrir sér hvers vegna Samkeppniseftirlitið gerði ekki athugasemd við kaup Orkuveitu Reykjavíkur á Hitaveitu Suðurnesja en viðskiptin með þann eignarhlut hefðu að miklu leyti verið milli aðila, sem áður voru sameigendur í félaginu.

Gunnar Svavarsson, þingmaður Samfylkingar, sagði að flokkurinn hefði bent á að auðlindirnar eigi að vera í eigu almennings og jafnframt, að dreifikerfi raforku og hita sé í meirihlutaeigu almennings.

Valgerður Sverrisdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, benti á, að virkjanaþátturinn væri ekki lengur í höndum Íslendinga heldur væri búið að opna hann fyrir Evrópska efnahagssvæðinu. Hún benti á, að flestar mikilvægustu auðlindir Íslendinga væru á þjóðlendum og þar með í eigu ríkisins. En auðlindir gætu einnig verið í einkaeigu og til að breyta því þyrfti að breyta gildandi lögum. Sagðist hún eiga eftir að sjá það, þrátt fyrir digrar yfirlýsingar Samfylkingarmanna, að þeir nái samkomulagi við sjálfstæðismenn að breyta auðlindalögunum frá 1998.

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, sagðist ekkert viss um að síðasta ríkisstjórn hefði á sínum tíma verið að gera réttan hlut þegar hún seldi hlut sinn í Hitaveitu Suðurlands. En öllum væri heimilt að vera vitrari í dag en í gær. Sagðist Guðni telja áhyggjur sveitarfélaganna í Suðurkjördæmi af Hitaveitu Suðurnesja eðlilegar og jafnframt væri eðlilegt að stjórnvöld fari yfir þessa stöðu og meti hana út frá hagsmunum almenning.

Guðni sagði það sína skoðun, að auðlindir háhitasvæðanna á Íslandi eigi að vera samfélagsleg eign Íslendinga. „Lækkun aðeins hávaðann og reynum að finna á þessu farsæla lausn," sagði Guðni.

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar, sagði að ruglið í Ráðhúsi Reykjavíkur undanfarna daga sýndi, að Alþingi hefði ekki unnið heimavinnu sína og tryggt ótvírætt eignarhald almennings á náttúruauðlindum og almenningseign á veitustarfsemi. Verði ekki að gert stefni í samskonar deilur um náttúruauðlindir og hafi orðið um fiskveiðiauðlindina. Sagðist Helgi telja, að ríkisstjórnin geti í samvinnu tryggt almannahagsmuni og um leið tryggt einkafyrirtækjum aðkomu til að skapa tækifæri til útrásar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert