Björn Ingi: Það var ekkert annað að gera í stöðunni

Margir fylgdust með fundi framsóknarmanna í Reykjavík í dag.
Margir fylgdust með fundi framsóknarmanna í Reykjavík í dag. mbl.is/RAX

Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins í Reyjavík, sagði á opnum fundi flokksins í dag að hann hefði ekki átt annarra kosta völ en að segja sig úr meirihlutasamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og að hann teldi að miklar innbyrðis deilur væru í flokknum, sem snerust um mun meira en aðeins það sem sneri að REI og Orkuveitu Reykjavíkur. Þá sagði hann að innan meirihlutans hafi verið komin upp óþægileg staða sem hann vissi ekki hvernig myndi enda.

Björn Ingi líkti undanförnum dögum við rússibanareið sem fyrst nú sæi fyrir endann á en að hann teldi að hann hefði allan tímann talað eins og haldið sig við þá stefnu sem mörkuð hafði verið.

Samstarf sitt við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson sagði Björn Ingi hafa verið með eindæmum gott og að milli þeirra hefði ríkt góður trúnaður og að fyrir stuttu síðan hefði enginn getað látið sér detta í hug þá atburði sem orðið hefðu.

Hann sagði að á vettvangi Orkuveitu Reykjavíkur hefði verið unnið undir forystu Sjálfstæðisflokksins, enda hefði verið samið um það að flokurinn hefði forystu í OR fyrstu tvö árin, en Framsóknarflokkurinn þau tvö síðari, þá hefði í raun verið þverpólitísk samstaða allra flokka um stefnumótun og útrásarstarfsemi sem hafi átt sér stað.

,,Það kom því held ég ekki bara mér, heldur mörgum öðrum á óvart þegar í ljós kom að innan borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna virtust menn í grundvallaratriðum ósammála í þeirri stefnumörkun sem flokkurinn sjálfur hafði lagt upp með."

Sagði Björn Ingi að sér hefði sýnst á undanförnum dögum og vikum að miklu meira væri í gangi innan flokksins, miklar innbyrðis deilur sem hugsanlega ættu sér rætur í prófkjörum, átök sem e.t.v. sæi ekki fyrir endann á og að heiftin virtist mikil.

Þá sagði Björn að ef það væri rétt hjá Sjálfstæðismönnum að engin óeining ríkti innan flokksins þá væri fréttaflutningur undanfarinnar viku á miklum misskilningi byggður. Þá spurði hann hvers vegna sex borgarfulltrúar hefðu farið á fund formanns Sjálfstæðisflokksins og varaformanns án borgarstjóra síns og hvernig forsætisráðherra hefði dottið í huga að taka á móti þeim án oddvitans.

,,Hvers konar ástand ríkir þegar menn taka slíkar ákvarðanir, að sjálfsögðu veikja menn oddvitann gríðarlega með því að gera þetta og ég finn til með vini mínum Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, því mér hefur ekki fundist hann eiga skilið þá meðferð sem hann hefur fengið."

Björn spurði að því hverjum hefði verið fórnað næst úr því borgarfulltrúarnir hafi getað niðurlægt borgarstjóra sinn og fórnað Hauki Leóssyni, besta vini borgarstjóra til fjörutíu ára, sem ekkert hefði af sér gert. Þá sagði hann að hugsanlega hefði flokkurinn oftar mátt standa í lappirnar og spurði hver niðurstaðan hefði verið ef hann hefði sagt já og amen við skilyrðum Sjálfstæðisflokksins.

,,Það var ekkert annað að gera í stöðunni, þetta er stundum erfitt, og geðshræring í gangi, en þegar maður gerir sitt besta, og stendur á sinni sannfæringu og hefur fólk með sér, þá gerir maður það sem þarf að gera, og gerir rétta hluti," sagði Björn Ingi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka