Einar K: Mat Landssambands smábátaeigenda ótrúverðugt

Smábátar í höfninni á Flateyri.
Smábátar í höfninni á Flateyri. mbl.is/Ómar

Einar Kristinn Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda á Grand Hóteli í dag að hann skilji að skiptar skoðanir séu um tillögur Hafrannsóknastofnunarinnar um niðurskurð þorskafla.

„Ég verð hins vegar að viðurkenna og segja hér hreinskilnislega að það stofnstærðarmat sem Landssamband smábátaeigenda leggur til grundvallar því að fara nær 100 þúsund tonnum fram úr veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar finnst mér afskaplega ótrúverðugt," sagði hann.

„Því þótt skekkja kunni að vera til staðar og sé sannarlega til staðar í stofnstærðarmatinu sjálfu, þá trúi ég því ekki að sú skekkja nemi slíku magni að það réttlæti að fara tæplega 100 þúsund tonnum fram úr ráðleggingum Hafrannsóknastofnunarinnar. Ég er því ósammála tillögu Landssambands smábátaeigenda. Reyndar höfðu allir aðrir hagsmunaaðilar hugmyndir um heildaraflamark sem var mun lægra og fól í sér niðurskurð sem um munaði í langflestum tilvikum.“

Þá sagði Einar að byggðakvóti eigi að endurspegla betur breytingar sem verða í heildaraflamarki einstakra byggðarlaga t.d. við sölu eða kaup á kvóta og eðlilegt sé að stefna að því að byggðakvótinn renni til færri byggðalaga en nú sé. Þetta muni óhjákvæmilega hafa röskun í för með sér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert