Starfsgreinasambandið ósátt við úrslit varaformannskjörs ASÍ

Frá ársfundi ASÍ, sem nú stendur yfir.
Frá ársfundi ASÍ, sem nú stendur yfir. mbl.is/Róbert

Forusta Starfsgreinasambandsins er mjög ósátt við úrslit atkvæðagreiðslu um varaforseta Alþýðusambands Íslands á ársfundi ASÍ fyrr í dag en þar tapaði Signý Jóhannesdóttir, fulltrúi Starfsgreinasambandsins, fyrir Ingibjörgu G. Guðmundsdóttur, núverandi varaforseta og fulltrúa verslunarmanna í forustu ASÍ.

Forusta Starfsgreinasambandsins lítur svo á, samkvæmt heimildum mbl.is, að valtað hafi verið yfir sambandið sem hefur um 40% félagsmanna í ASÍ innan sinna raða. Einnig hefur þó heyrst sú skoðun, að munurinn á Ingibjörgu og Signýu sé það mikill, að ljóst sé að fulltrúar Starfsgreinasambandsins hafi ekki allir fylkt sér á bak við Signýju.

Í gær var óvænt lögð fram málamiðlunartillaga þegar ljóst var að stefndi í kosningu um varaforseta ASÍ þar sem lagðar voru til breytingar á lögum ASÍ um fjölgun varaforseta í tvo. Sú tillaga fékk mjög misjafnar undirtektir því margir fulltrúar á ASÍ fundinum telja að gefast þurfi lengri tími til að ræða jafn stóra breytingu á skipulagi sambandsins. Þrátt fyrir að bæði Kristján Gunnarsson, formaður Starfsgreinasambandsins, og Gunnar Páll Pálsson, formaður VR, hvettu fundarmenn til að samþykkja lagabreytinguna var hún engu að síður felld þar sem 2/3 atkvæða þurfti til að hún teldist samþykkt.

Fulltrúar Starfsgreinasambandsins telja mjög eðlilegt að áhrifa SGS gæti meira í forustu ASÍ en verið hefur. Nú í hádeginu kom kjörnefnd saman og lagði fram lista yfir frambjóðendur í kjöri sjö manna í miðstjórn ASÍ. Lagt er til að þar af verði fjórir fulltrúar frá Starfsgreinasambandinu, þar á meðal Signý Jóhannesdóttir og Kristján Gunnarsson.

Auk þess leggur kjörnefnd til, að Gunnar Páll Pálsson, Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambandsins verði kjörnir í miðstjórn.

Kosningin í miðstjórn er að hefjast. Var kjörnefndin gagnrýnd á ársfundinum fyrir að leggja ekki til að neinn fulltrúi AFLs, nýja sameinaða verkalýðsfélagsins á Austurlandi, væri á lista nefndarinnar. Kom í kjölfarið úr sal tillaga um að Sverrir Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs, verði kjörinn í miðstjórn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert