Segir forstjóra Ratsjárstofnunar hafa hætt í góðu samkomulagi við ráðuneytið

Ólafur Örn Haraldsson
Ólafur Örn Haraldsson

Utanríkisráðuneytið segir, að Ólafur Örn Haraldsson hafi hætt störfum sem forstjóri Ratsjárstofnunar fyrir nokkrum dögum í góðu samkomulagi við ráðuneytið. Því eigi fyrirsögn á forsíðufrétt Fréttablaðsins ekki við rök að styðjast en þar sagði, að Ólafur Örn hefði gengi á dyr án þess að tilkynna ráðuneytinu að hann væri hættur.

Utanríkisráðuneytið segir, að í framhaldi af fullri yfirtöku íslenskra stjórnvalda á fjármögnun, rekstri og verkefnum Ratsjárstofnunar 15. ágúst sl. hafi sérstökum starfshópi verið falið að meta hvernig verkefnum stofnunarinnar og öðrum tengdum verkefnum verði best fyrir komið til framtíðar. Ljóst sé að nauðsynlegt sé að skjóta nýjum stoðum undir málefnasviðið með lagasetningu og stefnt sé að því að stofnunin taki til starfa á grunni nýrrar löggjafar á næsta ári.

Öllum samningum Ratsjárstofnunar, hvort heldur við byrgja eða starfsfólk hefur verið sagt upp, og á það einnig við um ráðningarsamning forstjóra. Ráðuneytið segir, að rétt sé þó að taka fram að vonast sé til að sem flestir starfsmanna muni starfa áfram á málefnasviðinu í framtíðinni.

„Ólafur Örn kom að starfi forstjóra Ratsjárstofnunar á miklum umbreytingartíma þegar verið var aðlaga stofnunina að breyttum rekstarforsendum Bandaríkjamanna. Hann skilaði þeirri umbreytingu af sér með miklum sóma og náði verulegri hagræðingu í rekstrinum.

Utanríkisráðuneytið og Ólafur Örn eru sammála um að nú þegar ljóst er að aftur verði ráðist í verulega umbreytingu á rekstrinum sé heppilegast að gefa svigrúm fyrir að nýir aðilar komi að málum. Því hefur orðið samkomulag um að hann vinni ekki út uppsagnarfrest sinn hjá stofnuninni. Ólafi Erni eru þökkuð vel unnin störf í þágu Ratsjárstofnunar og utanríkisráðuneytið væntir góðs samstarfs við hann og ráðgjafar frá honum um fyrirsjáanlega endurskipulagningu á málefnasviðinu," segir í tilkynningu ráðuneytisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert