Máli eigenda Óttarsstaða vegna álverins í Straumsvík vísað frá

Álverið í Straumsvík.
Álverið í Straumsvík. mbl.is/Ómar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur vísað frá máli, sem eigendur jarðarinnar Óttarsstaða höfðuðu en þeir vildu fá viðurkenningu á því með dómi, að óheimilt væri að reka álver Alcan á Íslandi í Straumsvík þannig að frá því stafi gastegundir eða reykur sem mengi loft, vatn og land á jörðinni. Óttarsstaðir eru 456,2 hektarar að stærð.

Landeigendurnir vildu einnig fá viðurkenningu á því, að sú takmörkun, sem felst í 12. gr. aðalsamnings milli íslenska ríkisins og Alusuisse hinn 28. mars 1966 á ábyrgð Alcan á Íslandi hf. á tjóni innan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar í landi Óttars­staða sé ólögmæt og ógild gagnvart jarðareigendunum.

Þá kröfðust þeir þess, að að Alcan á Íslandi, íslenska ríkinu og Hafnarfjarðarbæ væri gert að kaupa landið af þeim eða greiða skaðabætur þar sem landið sé verðlaust sem byggingarland vegna þess að það sé innan skilgreinds þynningarsvæðis.

Héraðsdómur taldi m.a., að ekki væri hægt að leysa úr þessum dómkröfum saman. Annars vegar væri um að ræða kröfu um að viðurkennt verði að rekstur álbræðslunnar í núverandi mynd sé óheimill og hins vegar krafa um að viðurkennt sé að Alcan sé skylt að kaupa af landeigendum tiltekið landsvæði eða greiða þeim skaðabætur fyrir landið.

„Með annarri dómkröfunni, ef á hana yrði fallist, væri verið að bæta stefnendum það tjón sem þeir hafa orðið fyrir af völdum reksturs álbræðslunnar. Geta þeir ekki samhliða gert kröfu um viðurkenningu á óheimilum rekstri, þar sem með skaðabótunum væri verið að bæta þeim óheimilan rekstur álbræðslunnar í núverandi mynd. Er hér um valkvæða kröfugerð að ræða þar sem lög standa ekki til þess að heimilt sé að verða við báðum kröfunum samhliða. Með vísan til þessa og þess er áður greinir um samspil annarrar og þriðju dómkröfunnar, er óhjákvæmilegt annað en að vísa máli þessu í heild sinni frá dómi," segir m.a. í dómnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert