„Verum meðvituð um að niðurstaða er fengin og gleðjumst yfir því"

Frá Kirkjuþingi, sem lýkur í dag.
Frá Kirkjuþingi, sem lýkur í dag.

Séra Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, sagði er hann ávarpaði Kirkjuþing eftir að tillaga um þjóðkirkjuna og staðfesta samvist var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum í dag að samþykkt tillögunnar marki söguleg þáttaskil.

„Það hefur fengist niðurstaða í langvinnu og örðugu máli," sagði hann. „Við skilum vera meðvitum um það að niðurstaða er fengin og gleðjast yfir þeim vilja til samstöðu sem hefur birst í allri þessari vinnu. Ég vona og bið að þau skilaboð berist nú héðan. Við settum okkur það markmið að fá niðurstöðu í þetta mál hér á Kirkjuþingi 2007 og það hefur tekist. Niðurstaðan um staðfesta samvist er byggð á löngu lýðræðisferli og rækilegri ígrundun og samtali úti í samfélaginu og á öllum stigum kirkjusamfélagsins okkar."

Karl sagði við Morgunblaðið, að unnið hafi verið að miklum heilindum á öllum stigum kirkjustarfsins til að ná sátt um viðkvæmt deilumál og sagðist hann vilja þakka öllum sem að því hafa komið.

Skömmu eftir að málið var tekið á dagskrá Kirkjuþings og tveir fulltrúar höfðu tjáð sig, var gert óvænt hlé, augljóslega til þess að ná samkomulagi um frekari umræður, sem urðu engar að loknu hléi. Biskup vildi ekki tjá sig um málið en segist vona að sátt megi ríkja um niðurstöðuna.

Í tillögunni, sem er að meginefni til samhljóða upphaflegri tillögu biskups Íslands, segir að ef lögum um staðfesta samvist verði breytt þannig að trúfélög fái heimild til að staðfesta samvist þá styðji Kirkjuþing það, að prestum þjóðkirkjunnar, sem séu vígslumenn að lögum, verði það heimilt.

Setningunni, „sem eru vígslumenn að lögum" var bætt inn í upphaflegu tillöguna. Jafnframt var dregin til baka önnur tillaga, sem lá fyrir Kirkjuþingi, um að prestum verði heimilt að vígja í staðfesta samvist, verði trúfélögum veitt slík lagaheimild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert