Flugvél sem hlekktist á komin í flugskýli

Hjólbarðinn fór af nefhjólinu þegar flugvélin rann til á flugbrautinni.
Hjólbarðinn fór af nefhjólinu þegar flugvélin rann til á flugbrautinni. vf.is/pket.

Búið er að skipta um nefhjól á Boeing 737-800 farþegaflugvélinni, sem hlekktist á eftir lendingu á Keflavíkurflugvelli í nótt. Flugvélin rann út fyrir flugbrautina og fór hjólbarði af nefhjólinu. Fram kemur á fréttavefnum vf.is, að ágætlega hafi gengið að koma nýju nefhjóli undir vélina og að því búnu var vélin dregin inn í flugskýli til skoðunar.

Í tilkynningu frá flugfélaginu JetX ehf., en vélin var á vegum þess, segir að flugvélin undirgangist nú nákvæma skoðun hjá viðhaldsdeild félagsins. Þá segist félagið harma óþægindi, sem farþegar hafi orðið fyrir.

Á heimasíðu Rannsóknarnefndar flugslysa segir að flugatvikið í nótt sé alvarlegt. Í aðflugi hafi áhöfnin fengið upgefin bremsuskilyrði og veður fyrir flugbraut 02 í Keflavík og voru þá bremsukilyrði sögð góð með ís á stöku stað. Í lendingarbruni hafi áhöfn orðið var við að bremsuskilyrði voru ekki eins og hún bjóst við. Reyndu flugmenn að hægja á flugvélinni með beitingu knývenda og hámarks handvirkri hemlun.

Þegar ljóst var að flugvélin myndi ekki stöðvast fyrir brautarenda beygði flugstjórinn vélinni af flugbraut 02 og yfir á akbraut N-4. Þar skreið flugvélin til í hálku og hafnaði með eitt aðalhjóla og nefhjól utan akbrautar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert