Farbann staðfest vegna Kárahnjúkamáls

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Austurlands, að erlendur maður, sem tengist starfsmannaleigunni NCL og GT verktökum, sæti farbanni til 6. nóvember.

Í greinargerð ríkislögreglustjóra segir, að maðurinn sé m.a. grunaður um að hafa boðið erlendum starfsmönnum fyrirtækjanna fé ef þeir færu tafarlaust úr landi og gæfu engar frekari skýrslur hjá lögreglu en mennirnir störfuðu við Kárahnjúkavirkjun. Þá hafi maðurinn og félagi hans hótað því að sverta nöfn starfsmannanna gagnvart öðrum fyrirtækjum hérlendis sem og erlendis. Í kjölfar þessa hafi átta af starfsmönnunum yfirgefið landið.

Segir ríkislögreglustjóri, að rökstuddur grunur leiki á að til standi að senda manninn úr landi, en félagi hafi yfirgefið landið í flýti daginn eftir að kæra vegna meintra hótana og mútugreiðslna barst lögreglu.

Upphaf málsins er, að AFL, starfsgreinafélagi, fékk um síðustu mánaðamót tölvupóst, undirritaðan af 10 starfsmönnum starfsmannaleigunnar NCL, sem leigði starfsmenn til GT verktaka. Í póstinum var fullyrt, að gögn sem afhent hafi verið Vinnumálastofnun af hálfu GT verktaka vegna eftirlitshlutverks stofnunarinnar, hafi verið röng. Meðal annars hafi framlagðir ráðningarsamningar ekki verið í samræmi við raunveruleg launakjör þar sem mennirnir hafi t.d. ekki fengið greitt fyrir yfirvinnu og vaktavinnu.

Vinnumálastofnun kærði málið til sýslumannsins á Seyðisfirði 4. október og var þar óskað eftir lögreglurannsókn á því hvort umrædd gögn, sem hefðu verið lögð fram af hálfu GT verktaka til stofnunarinnar hafi verið fölsuð. Sama dag bars kæra lögmanns AFLs hönd 13 erlendra starfsmanna GT verktaka vegna ætlaðra brota fyrirsvarsmanna fyrirtækisins eða NCL gegn starfsmönnunum.

Í kærunni var óskað eftir rannsókn á því hvort starfsmennirnir hafi á einhvern hátt verið neyddir með ólögmætum hótunum til að skrifa undir skjöl þess efnis að þeir hafi fengið mun hærri launagreiðslur frá GT verktökum en þeir hefðu í raun og veru gert. Fram kemur í úrskurði Héraðsdóms Austfjarða, að samkvæmt framburðarskýrslum, sem liggi fyrir í málinu, hafi maðurinn, sem nú er í farbanni, auk annars manns séð um að afhenda starfsmönnunum laun sín og láta þá kvitta fyrir móttöku á umrædd skjöl. Þannig hafi hann mögulega gerst sekur um hlutdeild í skjalabroti.

Þann 7. október sendi lögmaður AFLs aðra kæru til sýslumannsins á Seyðisfirði þar sem tveir fulltrúar fyrirtækjanna tveggja eru sakaðir um að hafa boðið starfsmönnunum fé ef þeir færu tafarlaust úr landi og gæfu engar frekari skýrslur hjá lögreglu vegna málanna. Þá hafi þeir hótað því að sverta nöfn starfsmannanna gagnvart öðrum fyrirtækjum hérlendis sem og erlendis. Í kjölfar þessa hafi átta af starfsmönnunum yfirgefið landið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert