Vilja afnema sérstök lífeyrisréttindi þingmanna og dómara

Fimm þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram frumvarp á Alþingi um að alþingismenn, ráðherrar og hæstaréttardómarar njóti sömu lífeyriskjara og ríkisstarfsmenn, en búi ekki við sérstök forréttindi. Þeir haldi þeim réttindum sem þeir hafa áunnið sér en eftir gildistöku laganna gildi almennar reglur um lífeyrisréttindi ríkisstarfsmanna um aðra en forseta Íslands.

Valgerður Bjarnadóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins. Segir í greinargerð, að setning laga um lífeyrisréttindi æðstu embættismanna árið 2003 hafi verið allumdeild meðal þjóðarinnar. Með þeim hafi æðstu handhöfum framkvæmdarvalds, löggjafarvalds og dómsvalds verið færð lífeyriskjör sem eru úr takti við það sem tíðkast meðal þjóðarinnar. Frumvarpið geri ráð fyrir að lífeyriskjör þessara hópa verði færð til þess vegar sem nú gerist hjá starfsmönnum ríkisins.

Þá hafi verið áhöld um hvort eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar verndi þau réttindi, sem fólk hafi áunnið sér eða fengið samkvæmt hinum umdeildu lögum. Til að forðast að málið lendi í sjálfheldu málalenginga á grundvelli formsatriða sé gert ráð fyrir að áunnin réttindi samkvæmt hinum umdeildu lögum skuli í engu skert.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert