Vöruverði í matvöruverslunum breytt margsinnis á dag

Matvöruverð í Krónunni er breytt margsinnis yfir daginn, að því er haft var eftir Kristni Skúlasyni, rekstrarstjóra Krónunnar í fréttum Útvarpsins. Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, segir að verði sé breytt margsinnis á dag. Segja þeir að grannt sé fylgst með verði í verslunum keppinautanna og brugðist við því.

Kristinn sagði í fréttum RÚV, að engin leið væri fyrir viðskiptavini að vita hvenær dagsins hagstæðast væri að gera innkaup.

Þá kom fram hjá forstjóra Neytendastofu, að upplýsingar hefðu borist um það að verslun, sem hefur opið á nóttinni, hækki verð á vörum um allt að 5% yfir nóttina án þess að auglýsa það sérstaklega.

Nokkrir núverandi og fyrrverandi starfsmenn Bónuss, Hagkaupa og Krónunnar hafa greint fréttamönnum á fréttastofu Ríkisútvarpsins frá því að verð í búðunum sé lækkað þegar verðkannanir fara fram. Einnig segja starfsmenn að samstarf sé á milli fyrirtækjanna um vöruverð. Forsvarsmenn verslanakeðjanna hafa alfarið neitað þessu.

Í fyrradag, daginn áður en fréttaflutningur af málinu hófst, höfðu tveir fréttamenn Útvarpsins farið í verslanir Bónuss og Krónunnar og kom fram í fréttum að þeir hefðu sannreynt margt af því sem starfsmennirnir sögðu frá.

Fyrst fóru þeir á vettvang sem „óbreyttar húsmæður" og kynntu sér verð á nokkrum vörutegundum. Í öllum tilvikum var verð á pakkavörum krónu lægra í Bónus, eins og heimildarmenn sögðu að væri samstarf um, auk þess sem kílóverð á kjöti var lægra þar. Hálftíma síðar höfðu þeir vistaskipti, þ.e. sá sem fór í Bónus fór nú í Krónuna. Í það skiptið kynntu þeir sig sem fréttamenn sem vildu kanna vöruverð.

Sama verð var á vörunum í Bónus hvort sem húsmóðirin eða fréttamaðurinn keyptu inn. Verðið í Krónunni hafði á hinn bóginn lækkað umtalsvert. „Á þeim hálftíma sem leið milli ferða húsmóðurinnar og fréttamannsins í Krónuna lækkaði kílóverð á kjúklingabringu um 34% auk þess sem afsláttur við kassa var 50% í stað 10% hálftíma áður. Afsláttur á nautahakki jókst einnig úr 15% í 30% á þessum hálftíma," sagði Guðrún Frímannsdóttir, fréttamaður Ríkisútvarpsins í kvöldfréttum. Allir starfsmenn, núverandi og fyrrverandi, hefðu staðfest að verð væri lækkað meðan kannanir fara fram.

Bæði Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, og Kristinn Skúlason, rekstrarstjóri Krónunnar, neituðu þessum ásökunum í viðtölum við Ríkisútvarpið í gær.

Kristinn var spurður hvernig hann gæti útskýrt að „óbreytt húsmóðir" fengi kíló af kjúklingabringum á 2500 krónur, auk 10% afsláttar við kassa, en þegar húsmóðir kynnti sig sem fréttamann hefði starfsmaður Krónunnar fundið kjúklingabringur á kílóverðinu 1875 krónur og þar að auki hefði verið veittur 50% afsláttur við kassa.

Þessu svaraði Kristinn svona: „Þú sem viðskiptavinur kemur kannski að borðinu og þú sérð í 90% framstillingu eru kjúklingabringur sem eru merktar frá Móum á þessu [verði, 2500 krónur] sem þú varst að tala um. Síðan látum við framleiða fyrir okkur, vikulega, kjúklingabringur sem eru merktar Krónunni á þessu verði [1875 krónur]. Það er ekki það mikið magn sem við fáum þannig að það er kannski ekki mjög sýnilegt fyrir viðskiptavininn nema hann leiti sér upplýsinga um það."

Aðspurður hvort þetta væri ekki óheiðarlegt, að draga vöruna fram þegar ljóst væri að verðkönnun stæði yfir neitaði hann því og sagði að varan væri sýnileg og til í versluninni.

Fréttamaður benti honum þá á að varan hefði ekki verið sýnileg, talsvert hefði verið leitað eftir ódýrari kjúklingabringum en þær ekki fundist. Þegar fréttamaðurinn hefði kynnt sig sem slíkan hefði starfsmaður Krónunnar fundið bringurnar en við leitina stóð „hann nánast á haus ofan í kælidisknum, leitaði og gróf og fann tvo pakka sem voru ódýrari," sagði Guðrún Frímannsdóttir, fréttamaður. Hún spurði líka hvort viðskiptavinir sem vildu fá ódýrustu vöruna yrðu að kalla eftir starfsmanni og óska sérstaklega eftir henni. Því neitaði Kristinn og sagði að í flestum tilvikum væri búðin með mikla og góða framstillingu á vörum sínum. „En alltaf er einhver undantekning á vörum sem þú getur fundið á hrikalega lágu verði sem kannski er ekki raunhæft að sé markaðverð," sagði hann.

Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, sagði aðspurður að Bónus svindlaði hvorki í verðkönnunum né stundaði Bónus samráð. „Við trúum því og treystum að ef menn hafa rangt við, þá fá menn það í bakið seinna meir. Við stundum ekki svoleiðis vinnubrögð," sagði hann. Hann hvatti alla sem teldu sig hafa upplýsingar um annað til að snúa sér til Samkeppnisstofnunar. „Bónus hefur ekkert að fela."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert