Stuðningur eykst við jarðvarmavirkjanir

mbl.is/G. Rúnar

Tveir af hverjum þremur telja æskilegra að nýta jarðvarma en fallvötn samkvæmt könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Orkuveitu Reykjavíkur um síðustu mánaðamót. OR segir, að miðað við könnun, sem gerð var fyrir ári, hafi þeim sem telja jarðvarmanýtingu æskilegri fjölgað um þriðjung.

Þeir kostir sem gefnir voru upp í könnuninni voru fjórir, þ.e. hvort æskilegra væri að nýta jarðvarma, virkja fallvötn, báðar leiðir væru jafn æskilegar eða báðar jafn óæskilegar.

65,9% sögðu jarðvarmann æskilegri en fallvötn, 24,5% sögðu báðar leiðir jafn æskilegar, 9,3% sögðu virkjun fallvatna æskilegri og 0,3% töldu báða kosti jafn óæskilega. Stuðningsfólki jarðvarmans fjölgar mest á milli ára en mest fækkar í þeim hópi sem telja báðar leiðir jafn æskilegar.

Þrjár af hverjum fjórum konum telja jarðvarmanýtingu æskilegri en 58% karla. Þá voru höfuðborgarbúar hallari undir jarðhitanýtingu en aðrir landsmenn. Ekki var marktækur munur á niðurstöðum milli aldurshópa en þeir svarenda sem höfðu minnsta og mesta formlega menntun voru hallari undir jarðhitanýtingu en aðrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert