Lagt til að leitað verði sátta í máli Svandísar gegn OR

Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur.
Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur. mbl.is/Þorkell

Borgarráð frestaði á fundi í dag, að afgreiða tillögu frá Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra, um að hann fái umboð til að staðfesta ákvarðanir stjórnar Orkuveitunnar frá 2. nóvember, m.a. um að falla frá staðfestingu á samruna Reykjavik Energy Invest og Geysir Green Energy.

Í tillögunni er einnig lagt til að leitað verði sátta í dómsmáli Orkuveitu Reykjavíkur og Svandísar Svavarsdóttur því með þessari niðurstöðu hafi málsaðilar ekki hagsmuni af niðurstöðu slíks máls.

Þá er lagt til að borgarráð veiti borgarstjóra umboð til að staðfesta ákvörðun stjórnar OR um að auka hlutafé í Reykjavík Energy Invest um 2,6 milljarða króna á genginu 1.

Loks er í tillögunni gert ráð fyrir að borgarstjóra verði falið að beita sér fyrir viðræðum ríkis, sveitarfélaga og meðeigenda í Hitaveitu Suðurnesja um framtíð fyrirtækisins í því skyni að tryggja að auðlindir og almenningsveitur verði í eigu almennings.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fulltrúi sjálfstæðismanna, lagði fram bókun þar sem óskað er eftir skriflegum rökstuðningi og skýringum vegna tillögu borgarstjóra. Þá óskaði Vilhjálmur eftir, að tillaga um niðurstöðu í málum REI og GGE, sem lögð hafi verið fyrir stýrihóp um málefni OR og Margrét Sverrisdóttir, forseti borgarstjórnar hafi kynnt á borgarráðsfundinum sem sáttatillaga í málinu, verði lögð fram á aukafundi borgarráðs á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert