Sátt í máli Svandísar gegn OR

Húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur
Húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur mbl.is/Sverrir

Sátt náðist í máli Svandísar Svavarsdóttur gegn Orkuveitu Reykjavíkur í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun að sögn Ragnars Hall, lögmanns Svandísar. Fellst sáttinn í því að Orkuveitan viðurkennir að eigendafundurinn 3. október hafi verið ólögmætur og Svandís fellur frá kröfu um að ákvarðanir fundarins verði dæmdar ólögmætar þar sem þær hafa þegar allar verið dregnar til baka, segir Ragnar.

Orkuveitan greiðir málskostnað Svandísar. Ragnar segir Svandísi sátta við þessa niðurstöðu enda í samræmi við það sem hún fór fram á. Þannig að hún telur sig hafa náð fram öllum sínum markmiðum með þessari málshöfðun að sögn Ragnars í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.

Í síðustu viku var samþykkt á eigendafundi OR að taka aftur ákvarðanir á umdeildum eigendafundi 3. október sl. varðandi samruna Reykjavik Energy Invest og Geysis Green Energy.

Jafnframt fólu eigendur stjórnarformanni Orkuveitunnar að ræða við aðra eigendur Reykjavík Energy Invest og Geysi Green Energy um stöðu og framhald málsins og að gera eigendum grein fyrir framgangi viðræðna á eigendafundi sem haldinn verður eftir viku.

Þá fólu eigendur forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, Hjörleifi Kvaran, að leita sátta í málaferlum Svandísar Svavarsdóttur gegn Orkuveitu Reykjavíkur vegna lögmætis fundarins 3. október líkt og gert var í héraðsdómi í morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert