Skoðað hvort setja eigi reglur um sölu á erfðaupplýsingum

Ráðherrar á Alþingi.
Ráðherrar á Alþingi. mbl.is/Sverrir

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að hann ætli að láta skoða það setja reglur um starfsemi af því tagi, sem Íslensk erfðagreining kynnti fyrir helgi. En fyrirtækið býður almenningi gegn greiðslu að fá upplýsingar um hvort þeir hafi tiltekna erfðaeiginleika sem tengdir hafa verið aukinni áhættu á tilteknum sjúkdómum.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, tók málið upp í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag, og sagði að Íslensk erfðagreining byði nú til sölu erfðaupplýsingar til einstaklinga og fyrir 60 þúsund krónur væru reiknaðar út líkurnar á að viðkomandi fái sykursýki eða hjartasjúkdóma. Engar reglur væru hins vegar til um slíkar upplýsingar og þótt þær vörðu þær sem keypti væru þetta um leið upplýsingar um nána ættingja þeirra, sem þær keyptu, svo sem börn, systkini og foreldra. Þessar upplýsingar gætu verið verðmætar, svo sem fyrir tryggingafélög og vinnuveitendur.

Spurði Ásta Ragnheiður hvort ráðherra hefði hugað að því að setja reglur um þetta. Guðlaugur Þór sagði, að um væri að ræða nýja hluti og fljótt á litið væri jákvætt, að hægt væri að afla upplýsinga um mann sjálfan og eigin heilsu. En myndin væri flóknari þegar kæmi að nánum ættingjum og full ástæða væri til að fara yfir málið og önnur tengd mál. Sagðist Guðlaugur Þór hafa hugsað sér að kalla til aðila, sem hefðu fjallað um þessi mál, svo sem Læknafélag Íslands.

Guðlaugur Þór sagði, að gera mætti ráð fyrir að önnur sambærileg mál gætu komið upp á næstunni og þau byðu upp á ýmsa möguleika en einnig hættur eins og Ásta Ragnheiður hefði bent á.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert