ÍE ekki bundið af ákvæði kjarasamninga um hækkun lífeyrissjóðsgreiðslu

Hús Íslenskrar erfðagreiningar.
Hús Íslenskrar erfðagreiningar.

Hæstiréttur hefur sýknað Íslenska erfðagreiningu af kröfu Gildis lífeyrissjóðs, sem taldi, að fyrirtækinu hefði borið að fara eftir ákvæðum kjarasamnings, sem gerður var árið 2004 og kvað m.a. á um að framlag launagreiðenda í lífeyrissjóð skyldu hækka úr 6% í 8% í áföngum á samningstímabilinu.

Fram kemur í dómi Hæstaréttar, að Íslensk erfðagreining taldi sér ekki skylt að standa skil á þessum hækkuðu iðgjöldum til Gildis vegna starfsmanna sinna, sem þar voru sjóðfélagar, þar sem fyrirtækið væri ekki aðili að Samtökum atvinnulífsins og væri því einungis skylt að greiða 6% iðgjald eins og lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða kváðu á um.

Gildi höfðaði mál á hendur ÍE þar sem þar sem krafist var viðurkenningar á að fyrirtækinu bæri að greiða iðgjöld samkvæmt fyrrgreindum kjarasamningi vegna þeirra starfsmanna, sem völdu að borga í lífeyrissjóð Gildis.

Héraðsdómur dæmdi lífeyrissjóðnum í vil en Hæstiréttur sýknaði Íslenska erfðagreiningu og segir m.a., að ákvæði laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu, þar sem kveðið er á um að kjarasamningur ráði lágmarkskjörum fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein, yrði ekki skýrt svo að það, eitt út af fyrir sig, gæti bundið hendur launagreiðenda og starfsmanns um sérhvert atriði ráðningarsamnings, heldur yrðu starfskjör, metin í einni heild, að nema því lágmarki sem kjarasamningur tryggir.

Hæstiréttur segir, að þar sem Gildi hefði ekki hnekkt staðhæfingum Íslenskrar erfðagreiningar um að með ráðningarsamningum hefðu starfsmennirnir búið við talsvert hagstæðari starfskjör en þeim hefði borið samkvæmt kjarasamningnum, gæti fyrirtækið ekki verið bundið af þessu eina afmarkaða atriði kjarasamningsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert