13 dauðaslys í umferðinni rakin til veikinda ökumanna

Hætta á umferðarslysum vegna sjúkdóma eða neyslu lyfja þeim tengdum er sambærileg hættunni sem hlýst af ölvun eða neyslu fíkniefna, segir í nýrri varnaðarskýrslu Rannsóknarnefndar umferðarslysa.

Nefndin leggur til að samgönguráðuneytið endurskoði án tafar reglur um ökuhæfi og heilbrigðisskilyrði og segir núverandi greiningarkerfi á ökuhæfi ófullnægjandi.

Samkvæmt Slysaskrá Umferðastofu má rekja fjörutíu umferðarslys sem ollu meiðslum á árunum 2002-2006 til veikinda ökumanna. Önnur 68 umferðarslys sem ekki ollu meiðslum á sama tímabili, má rekja til sömu orsakar. Samanlagt eru þetta um 20 tilfelli á ári, sem þó hafa ekki verið rannsökuð ítarlega og ber því að taka með fyrirvara.

Í skýrslu RNU er greint frá rannsókn nefndarinnar á 13 dauðsföllum í umferðinni frá árinu 1998. Í þeim tilfellum er orsök dauðaslysanna rakin til veikinda ökumanna. Í 11 af 13 tilvikum var vitað um veikindi ökumannsins og í einu tilviki átti atvinnubílstjóri langa sjúkrasögu.

Algengustu sjúkdómarnir í þessum 13 tilfellum eru hjarta- eða æðasjúkdómar, þar sem ökumaður fær slag eða aðsvif undir stýri. Geðræn vandamál voru orsök tveggja dauðsfalla, þar sem ökumenn voru undir áhrifum geðdeyfilyfja og í tilfinningalegu ójafnvægi. Í þeirra tilfellum kemst RNU að þeirri niðurstöðu að ökumennirnir hafi framið sjálfsvíg í umferðinni. Aðrar orsakir dauðaslysanna voru sykursýki, þar sem ökumenn höfðu fengið sykurfall undir stýri, flogaveiki og kæfisvefn.

Samkvæmt grein lækningalaga um þagnarskyldu ber læknum ekki skylda til að tilkynna um veikindi og lyfjaneyslu sjúklinga. Ökumenn geta því haldið réttindum í 52 ár burtséð frá líkamlegu og andlegu ástandi, nema þeir valdi slysum eða séu stöðvaðir af lögreglu. Þar sem ökuréttindi eru talin sjálfsögð mannréttindi bendir RNU á að leiðbeina þurfi aðstandendum og heilbrigðisstarfsmönnum um hvernig standa skuli að sviptingu ökuleyfa. Slík svipting feli í sér frelsissviptingu en sé eina leiðin til að koma í veg fyrir slys af þessu tagi.

RNU telur lögum um umferðaröryggi og ökuhæfi ekki vera framfylgt með viðundandi hætti og að vegna framþróunar í læknisfræði og á greiningartækjum, sé hægt að gera mun betur á þessu sviði en nú er. Nefndin hvetur einnig ökumenn í áhættuhópi vegna veikinda eða lyfjanotkunar til að sýna ábyrgð og gangast undir skoðun á ökuhæfi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert