Engin ákvörðun tekin um áminningu

Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs., segir að mál fjögurra starfsmanna, sem sem fengu bréf vegna fyrirhugaðrar áminningar, sé enn í vinnslu og engin áminning hafi verið veitt enn heldur sé málið enn í ákveðnu ferli.

Reynir segir, að stjórnendur fyrirtækisins hafi fengið upplýsingar um það frá starfsmönnum á Hlemmi, að þar hefðu starfsmenn Srætó verið staddir síðdegis 27. nóvember og verið ölvaðir og einhverjir hefðu haft áfengi um hönd.

Sagði Reynir, að hegðun sem þessi væri hvorki talin samræmast starfi starfsmannanna né stöðu  en þeir hefðu verið þarna í vinnutíma fyrirtækisins. Reynir sagði að málið hefði verið kannað nánar og síðan hefði verið sent bréf til starfsmannanna fjögurra þar sem þeim var boðið að koma fram með sína hlið mála og málsbætur ef þær væru fyrir hendi. 

Í kjölfarið var haldinn fundur með starfsmönnunum, sem fulltrúar Starfsmannafélags Reykjavíkur sátu einnig. Þar var farið fram á frest til að afla gagna og sá frestur var veittur. 

Reynir lagði áherslu á að stjórnendur Strætó hefðu ekki veitt  neinar áminningar enn í málinu og það væri í ákveðnu ferli. Hins vegar áskilji félagið sér rétt til að veita þessum mönnum áminningu komi engar málsbætur fram.

Þrír af mönnunum fjórum hafa verið trúnaðarmenn Starfsmannafélags Reykjavíkur hjá Strætó. Í dag lýstu trúnaðarmennirnir þrír því yfir á vefsíðu, sem þeir halda úti, að þeir hefðu sagt sig frá trúnaðarmannaskyldum vegna málsins. Reynir vildi aðspurður ekkert tjá sig um það mál.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert