Vill lækka skatt tekjulágra

Frá fundi fulltrúa ASÍ og ríkisstjórnarinnar í dag.
Frá fundi fulltrúa ASÍ og ríkisstjórnarinnar í dag. mbl.is/Golli

Á fundi forsvarsmanna ASÍ og ráðherra í ríkisstjórninni í dag voru kynntar áherslur ASÍ í væntanlegum viðræðum við stjórnvöld.

ASÍ vill m.a. að dregið verði úr skattbyrði hinna tekjulægstu, staða barnafjölskyldna verði treyst og lágmarksbótafjárhæðir velferðarkerfis verði miðaðar við 150 þúsund krónur á mánuði. Þá verði komið til móts við aukna greiðslubyrði húsnæðislána, blásið til sóknar í menntaúrræðum vegna þeirra sem minnsta menntun hafa á vinnumarkaði.

Í tillögum ASÍ er m.a. gert ráð fyrir sérstökum 20 þúsund króna persónuafslætti, sem þeir njóti sem lægstar hafa tekjurnar. Þessi afsláttur fari lækkandi eftir að laun ná 150 þúsundum króna á mánuði og fjarar út við 300 þúsund. ASÍ gerir ráð fyrir því, að þessi persónuafsláttur verði meðhöndlaður með sama hætti og barnabætur og greiðist eftirá. Því verði staðgreiðslukerfi ekki raskað.

ASÍ áætlar, að þessi viðbótarpersónuafsláttur muni kosta ríkið 14 milljarða króna. 

Þá vill ASÍ, að skerðingarmörk barnabóta verði hækkuð í 150 þúsund krónur og 300 þúsund fyrir hjón. Þá lækki tekjutenging barnabóta vegna annars og þriðja barns  um 1 prósentu.

Einnig vill ASÍ, að dregið verði úr eignatengingum vaxtabóta með verulegri hækkun skerðingarmarka og húsaleigubætur hækki verulega.

Í menntamálum vill ASÍ, að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins sameinist um stefnu, sem felist í því, að ekki verði fleiri en 10% á vinnumarkaði án viðurkenndrar starfs- og framhaldsmenntunar árið 2020 og fjármögnun þessa náms verði tryggð. Nú eru um 40% á vinnumarkaði án slíkrar menntunar.

Í tillögum ASÍ er einnig farið fram á að sett verði í lög að allir eigi kost á viðurkenndu framhaldsnámi á kostnað ríkisins. Þá verði námslánakerfinu breytt þannig, að fullorðnu fólki, 25 ára og eldri, verði gert kleift að fá námslán til að ljúka viðurkenndu framhaldsnámi, án tengsla við fyrri tekjur.

Áherslur ASÍ

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert