Skýrslur um hugsanlega olíuhreinsistöð kynntar

Anna G. Edvardsdóttir og Aðalsteinn Óskarsson á blaðamannafundinum í dag.
Anna G. Edvardsdóttir og Aðalsteinn Óskarsson á blaðamannafundinum í dag. mynd/bb.is

Skýrsla um staðarval fyrir olíuhreinsistöð á Vestfjörðum var kynnt  á Ísafirði í dag og einnig var þar kynnt skýrsla þar sem skoðaðir eru valdir samfélagsþættir á Vestfjörðum.  Fjórðungssamband Vestfirðinga lét vinna þessar skýrslur og samkvæmt þeim er ekkert því til fyrirstöðu að olíuhreinsistöð geti risið á Vestfjörðum.

Anna G. Edvardsdóttir, formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga, og Aðalsteinn Óskarsson, framkvæmdastjóri sambandsins, kynntu skýrsluna. Fram kom að sértækar skýrslur um náttúrufar við Hvestu í Arnarfirði og á Söndum í Dýrafirði verða ekki gerðar opinberar að svo stöddu.

Aðspurð um ástæðu þess sagði Anna að Fjórðungssambandið og Íslenskur hátækniiðnaður, sem hefur lýst áhuga á byggingu olíuhreinsistöðvar, hafi gert með sér samkomulag um að binda þessar skýrslur trúnaði meðan á undirbúningi stendur vegna þess að efni þeirra nýtist við umhverfismat og fyrirtækið hafi viljað vera í forgangi. Ef Íslenskur hátækniiðnaður hættir við áform sín verða skýrslurnar gerðar opinberar.

Fram kom að Fjórðungssambandið hafi lagt 8,5 milljónir undirbúning að olíuhreinsistöð. Framlag Íslensks hátækniiðnaðar er viðskiptahugmyndin.

Ekki er tekin afstaða til mismunandi staða í skýrslunum. Anna sagði að ætlunin með skýrslugerðinni hafi ekki verið að gera upp á milli staða heldur hafi átt að kanna hvort eitthvað stæði í vegi fyrir starfsemi olíuhreinsistöðvar á þessum stöðum. Í byrjun næsta árs er ráðgert að halda málþing þar sem skýrsluhöfundar kynna skýrslurnar. Anna sagði að boltinn sé nú hjá fjárfestum og forsvarsmönnum Vesturbyggðar og Ísafjarðarbæjar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert