VG varar við uppskiptingu Landsvirkjunar

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs segir, að alvarlegar spurningar vakni við þær fréttir að nú eigi að kljúfa Landsvirkjun í tvö fyrirtæki, annars vegar Landsvirkjun og hins vegar Landsvirkjun Power ehf.

Segir flokkurinn, að með þessu sé verið að búa til tvo forstjórastóla í stað eins og færa hluta af umsvifum fyrirtækisins, ákvarðanir og verkefni, fjær eigendum, þ.e.a.s. almenningi. Aðhald og eftirlit kjörinna fulltrúa virðist með þessu verða takmarkað enn frekar en áður jafnvel þótt í hlut eigi einokunarrisi íslensks orkumarkaðar í 100% eigu almennings.

VG segir, að við þessar breytingar muni upplýsingagjöf „ehf.“-hluta fyrirtækisins væntanlega skerðast og viðbúið sé að reynt verði að undanþiggja þann hluta starfseminnar ákvæðum upplýsingalaga og stjórnsýslulaga. Einnig hafi þetta áhrif á réttarstöðu starfsmanna. Með LV Power ehf. virðist ekki í reynd verið að afmarka áhættuna heldur þvert á móti blanda saman verkefnum innan lands og erlendis með tilheyrandi áhættu.

„Það er athyglisvert að þessum gjörningi er hampað sem hluta af og beinlínis vísað til stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Það helsta sem þar kemur fram varðandi orkumál er að „tímabært“ sé að „leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins svo að íslensk sérþekking og hugvit fái notið sín til fulls í útrás orkufyrirtækja.“ Ber að túlka þetta svo að til standi að hleypa einkafjármagninu inn í framkvæmdir hér innan lands einnig, þar eð LV Power virðist jöfnum höndum eiga að annast verkefni hérlendis og erlendis?" segir í ályktun VG þar sem varað er sterklega við þessum áformum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert