Börn fá Range Rover í jólagjöf

„Fjarstýrður Range Rover fyrir þau allra flottustu. Spilar tónlist og er með alls konar flottum ljósum. Alvörukaggi!" Svona er fjarstýrðum Range Rover-jeppa lýst í Hagkaupum í Smáralind.

Samkvæmt upplýsingum frá leikfangadeild Hagkaupa í Smáralind er mikil spenna fyrir fjarstýrðum lúxusbílum, þrátt fyrir að þeir séu ekki mjög hentugir í torfærur, en börn eru jafnan spenntari fyrir hólum og hæðum heldur en hefðbundnum götuakstri.

Lexus- og Ford Mustang-bílar eru einnig fáanlegir í fjarstýrðum útgáfum, en starfsmaður í Hagkaupa sagði að verslunin hefði nýlega tekið inn þessar tegundir af bílum. Sannkallað lúxusbílaæði hefur gripið þjóðina og þar er greinilega ekki spurt um aldur.

Skemmst er að minnast þess þegar Blaðið (nú 24 stundir) sagði frá því að 2007 yrði metár í lúxusbílasölu. Það sem af er ári hafa 127 nýir Range Rover-jeppar selst samkvæmt upplýsingum af vef Umferðarstofu.

Verðið á þeim er frá tæpum 8 milljónum upp í rúmar 17 milljónir. Verðkröfur barnanna eru ögn hógværari, en fjarstýrður Range Rover kostar 6.990 krónur í Hagkaupum. Ef barnið hyggst taka bílalán til 84 mánaða hjá TM fyrir bílnum þyrfti það að punga út rúmum 400 krónum á mánuði, miðað við 20% innborgun. Fjarstýrði bíllinn myndi á endanum kosta rúmar 33.000 krónur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert