Grunur um íkveikju í Jórufelli

Fólk sem flutt var á slysadeild eftir bruna í Jórufelli í Reykjavík um hádegisbilið í dag er enn í skoðun á Landspítalanum, en samkvæmt upplýsingum þaðan er ekki talið að neinn hafi hlotið alvarlegan skaða.

Slökkvistarfi lauk um klukkan 14. Töluverðar skemmdir urðu á stigaganginum, en ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort mikill reykur hafi komist inn í íbúðir.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út vegna eldsins laust eftir hádegið. Eldurinn kom upp í hjólageymslu í sameign á jarðhæð, og lagði mikinn og þykkan reyk um stigaganginn.

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri sagði að vegna reyksins hefði fólki verið bjargað úr íbúðum við stigaganginn með körfubíl. Ekki lægi fyrir hver eldsupptökin hefðu verið, en grunur léki á að um íkveikju kunni að vera að ræða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert