Verð á nýjum bílum hækkar

Bílaumboðin hafa hækkað verð sín um 3-5%
Bílaumboðin hafa hækkað verð sín um 3-5% mbl.is

Bílaumboð hækkuðu flest verð á nýjum bílum í kring um síðustu áramót. Hækkunin nemur á bilinu 3-5% og segja talsmenn bílaumboðanna ýmsar ástæður fyrir hækkununum, einkum hærra verð frá birgjum, hærri flutningsgjöld og óhagstæða gengisþróun.

Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota á Íslandi, sagði að félagið hefði hækkað verð á bílum um u.þ.b. 5% í byrjun desember. Hann segir að hækkunin hafi einkum stafað af breytingum á gengi. Fyrirtækið hafi lækkað verð á bílum sl. sumar en síðan hafi gengisþróun krónunnar verið óhagstæð.

Andrés Jónsson hjá B&L segir að þar á bæ hafi verið ákveðið að fylgja í kjölfar keppinautanna, enda hafi verið kominn tími á hækkun, m.a. vegna gengisbreytinga.

Hjá Ingvari Helgasyni segir Loftur Ágústsson, markaðsstjóri, að verð hafi verið hækkað um um þ.b. 3%. Ástæðuna segir hann tvær hækkanir frá birgjum sem umboðið hafi beðið með að skila út í verðið fyrr en um áramót og hækkun á flutningsgjöldum.

Jón Trausti Ólafsson, markaðsstjóri Heklu, segir að enn hafi verð ekki verið hækkað en verið sé að skoða þau mál, bæði hafi gengi krónunnar verið þannig að ástæða sé til að skoða verðið en auk þess hafi verð hjá birgjum hækkað og því spurning hversu lengi núverandi verð standi.

Almennt virðast talsmenn bílaumboðanna mjög ánægðir með sölu á nýjum bílum á síðasta ári, bæði framan af en ekki síst undir lok þess. Þeir segjast bjartsýnir á árið sem nýhafið er.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert