Ef til vill tilefni til að styrkja faglega ferla

Friðrik Tryggvason

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar sagði í ræðu sinni á flokksstjórnarfundi í dag að ef til vill gæfu nýlegar stöðuveitingar ráðherra tilefni til að „styrkja enn frekar faglega ferla stjórnkerfisins.“

„Þar hlýtur meðal annars að koma til álita að fjölga sjálfstæðum dómnefndum við mat á umsækjendum um æðstu stjórnunarstöður og kveða enn skýrar á um í lögum hvernig ráðherra skuli fara með niðurstöður slíkrar nefndar,“ sagði Ingibjörg.

„Við höfum nýlegt dæmi um það að settur dómsmálaráðherra hafi vikið verulega frá mati sjálfstæðrar dómnefndar á hæfni umsækjenda um stöðu héraðsdómara. Til þess hefur hann visst svigrúm sem er hins vegar viðkvæmt og vandmeðfarið.“

„Afgerandi frávik frá niðurstöðu lögmæltrar matsnefndar mun alltaf vekja upp efasemdarraddir um að faglegar forsendur ráði. Það er sérstaklega óheppilegt í þegar dómstólar landsins eiga í hlut af augljósum ástæðum og af virðingu fyrir þrískiptingu ríkisvaldsins ber að forðast slíkt í lengstu lög.“

„Umræða hefur einnig skapast um embættisveitingar iðnaðarráðherra. Þar er ekki um það að ræða að gengið sé á svig við niðurstöðu faglegrar dómnefndar og aðstæður því allt annars eðlis. Þegar ráðið er í stöður hljóta alltaf að koma inn í myndina matskenndir þættir. Engu að síður skiptir það meginmáli að rökstuðningurinn sé skýr og hinir matskenndu þættir taki mið af því sem um var beðið þegar staðan var auglýst.“

Ræðu Ingibjargar má lesa í heild á vef Samfylkingarinnar.
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka