Samherji hættir rækjuvinnslu á Akureyri

Frá rækjuvinnslu Samherja á Akureyri.
Frá rækjuvinnslu Samherja á Akureyri. mbl.is/Skapti

Á fundi með starfsmönnum rækjuvinnslu Samherja á Akureyri í dag var þeim tilkynnt að félagið hafi ákveðið að hætta rækjuvinnslu og loka starfsstöð félagsins á Akureyri. Flestum starfsmönnum rækjuvinnslunnar, rúmlega 20 manns, verður sagt upp en hluti mun fara til annarra starfa innan Samherja.

Samherji segir í tilkynningu að reynt verði eftir fremsta megni að aðstoða alla við að fá vinnu á Akureyri. Gerður hafi verið samningur við Capacent - ráðgjöf um að aðstoða fólkið í atvinnuleit þess, auk þess sem rætt hefur verið við forsvarsmenn annarra matvælafyrirtækja á Akureyri.

Haft er eftir Gesti Geirssyni, framkvæmdarstjóra landvinnslu Samherja,  að það sé mjög sárt að þurfa að grípa til þess að loka rækjuvinnslunni en aðrir kostir hafi einfaldlega ekki verið í stöðunni.

Gestur Geirsson, framkvæmdarstjóri landvinnslu Samherja hf., segir það mjög sárt að þurfa að grípa til þess að loka rækjuvinnslunni en aðrir kostir hafi einfaldlega ekki verið í stöðunni. Á undanförnum árum hafi verið hagrætt verulega í rekstri rækjuverksmiðjunnar til að halda honum gangandi, í þeirri von að aðstæður breyttust til hins betra. Það hafi hins vegar ekki gerst, heldur hafi rekstrarskilyrðin þvert á móti versnað.

„Ofursterk króna í kjölfar glórulausrar vaxtastefnu Seðlabanka orsakar óviðundandi starfsumhverfi fyrir útflutningsgreinarnar og veldur fjöldauppsögnum víða eins og komið hefur fram á undanförnum mánuðum," segir Gestur í tilkynningunni.

Langvarandi rekstarerfiðleikar
Samherji segir, að rekstur rækjuverksmiðja hafi verið mjög erfiður undanfarin ár og þessi ákvörðun komi fáum á óvart sem fylgst hafi með fréttum af þeim vettvangi. Reksturinn hafi síðustu misserin byggt að stærstum hluta á innfluttu hráefni enda veiðin við Ísland í fyrra sú minnsta í 40 ára sögu rækjuveiða.

Rækjuverksmiðjum hefur fækkað jafnt og þétt undanfarin ár, bæði hér á landi og annars staðar. Nú er svo komið að aðeins 4-5 verksmiðjur eru starfandi á Íslandi en þær voru rúmlega 30 þegar mest var fyrir nokkrum árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert