Borgarstjóri: Enginn fótur fyrir meirihlutaviðræðum

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, segir fréttir af því að borgarfulltrúar frjálslyndra og sjálfstæðismanna í borgarstjórn séu að ræða saman um nýjan meirihluta ekki eiga við rök að styðjast.

Vefmiðillinn vísir.is sagði í dag að Ólafur F. Magnússon og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hefðu hist til að ræða hugsanlega myndun nýs meirihluta Sjálfstæðisflokks og Frjálslyndra og óháðra. Tekið var fram að hvorki hefði náðst tal af Ólafi né Vilhjálmi.

Dagur segist hafa rætt við Ólaf F. Magnússon í morgun, sem hafi vísað fréttunum á bug.

„Þeir [Sjálfstæðisflokkurinn] hafa verið planta svona sögum um alla flokkana frá því meirihlutinn var myndaður,“ segir Dagur og bætir því við að það sé enginn fótur fyrir þessum orðrómi.

Margrét Sverrisdóttir, varaborgarfulltrúi Frjálslyndra og óháðra sagði einnig í samtali við mbl.is, að ekki væri verið að mynda nýjan meirihluta. Hvorki Ólafur né Vilhjálmur hafa svarað símtölum.

Aðspurður um framtíð Björns Inga Hrafnssonar, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, í borgarstjórn, sem hefur hótað að segja sig úr flokknum vegna innanflokksátaka, segir Dagur: „Þetta er með miklum ólíkindum hvernig að honum er sótt. Ég á ekki von á því að það hafi nokkur áhrif á meirihlutasamstarfið í borginni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert