Átök framsóknarmanna í Reykjavík hafa jaðrað við mannvíg

Guðni Ágústsson.
Guðni Ágústsson. mbl.is/G.Rúnar

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði á opnum stjórnmálafundi á Egilsstöðum í gærkvöldi, að innandeilur innan Framsóknarflokksins á Reykjavíkursvæðinu hafi oft jaðrað við mannvíg þar sem þær hafi verið svo hörkulegar gegnum árin.

Sagt er frá fundinum á fréttavef Austurgluggans og birtur orðréttur kafli úr ræðu Guðna. Samkvæmt frétt blaðsins sagði Guðni, að flokkurinn hafi orðið fyrir miklum skaða vegna þess að menn hafa verið að takast á innbyrðis og samherjarnir í flokknum hafi slegist hver við annan.

Guðni sagði, samkvæmt frásögn Austurgluggans, að það hefði verið ánægja hjá framsóknarmönnum um allt land þegar stofnað var til samstarfs nýs félagshyggjumeirihluta í borginni. „Það kom fram í öllum könnunum að Reykjavíkurbúar voru mjög ánægðir með nýjan dag og nýjan meirihluta sem stofnaður var í Reykjavík að okkar frumkvæði til að ná árangri. Sannarlega batt ég við það miklar vonir að slíkt myndi reisa okkur í Reykjavík til nýrrar sóknar Framsóknarflokksins í borginni. Þá kom nú þessi síðari jarðskjálfti með skelfilegum hætti," sagði hann.

Guðni sagði, að kaldir vindar hafi að einhverju leyti leikið um Björn Inga Hrafnson, sem í gær sagði af sér sem borgarfulltrúi.

„Hraði hans hefur verið mikill og hann hefur náð skjótum frama í flokknum. Þannig að hann hefur verið umdeildur þar af einhverjum hópi. Ég verð að segja hér við ykkur að framkoma Guðjóns Ólafs Jónssonar, fyrrum þingmanns okkar  og okkar ágæta vinar var auðvitað makalaus. Svoleiðis umræða má ekki eiga sér stað í flokki. Svoleiðis framkoma eins og var í Silfri Egils má ekki eiga sér stað. Það er náttúrulega umhugsunarefni á breyttum tímum, þegar menn hafa sem betur fer í áratugi ekki tekist persónulega á, þá skuli minn maður sitja með leyfi stjórnandans nánast taka okkar mann af lífi í beinni útsendingu – eins og þarna gerðist og enginn var til varnar. Þetta hefur haft mjög mikil áhrif á hann og fjölskyldu hans. Því að það er nú eitt að takast á í þessum stormum stjórnmálanna, það er annað að sitja eilíflega undir persónulegum árásum. Það reyndi hann í REI málinu ekki síst frá sjálfstæðismönnum sem höfðu farið offari að mannorði hans að mér fannst á þeim tíma.

Síðan kom þetta innanfrá með ósvífnum hætti. Þannig að ég harma þessa stöðu og segi við okkur að það er ekkert mikilvægara fyrir Framsóknarflokkinn en að hverfa frá svona pólitík, því við eigum allt undir því að standa saman. Þess vegna verða í Framsóknarflokknum að hefjast önnur og annarskonar vinnubrögð á höfuðborgarsvæðinu hvað þetta varðar. Það er eins og við kunnum ekki að ganga í gegnum átök eða prófkjör á því svæði. Þannig að við þurfum að fara yfir þessa stöðu verulega," sagði Guðni á fundinum að sögn Austurgluggans.

 Frásögn Austurgluggans

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert