Landsliðið vantar lukkutröll

Öllum þeim sem fylgdust með íslenska handboltalandsliðinu á EM í Noregi er ljóst að mikið vantaði upp á leik liðsins í keppninni. Hafa spekingar velt því fyrir sér hvað hrjáði liðið og hafa klisjulegar tuggur á borð við slaka markvörslu, hæga sókn og slæma nýtingu dauðafæra jafnan verið nefndar sem mögulegar skýringar. Að mati sérfræðinga 24 stunda, gæti skýringin á slæmu gengi þó verið allt önnur; nefnilega skortur á lukkudýri.

Líkt og þeir sem fylgdust með leik Íslands og Ungverjalands tóku eftir, þá hópuðust leikmenn Ungverja í kringum þéttvaxinn mann með yfirvaraskegg á sextugsaldri í hvert skipti sem leikhlé var tekið. Hlutverk þessa manns var aðeins eitt; að vera lukkudýr síns liðs. Er þetta eitthvað sem Ísland mætti taka upp á sína arma og að sögn fyrrum stórskyttu landsliðsins, Sigurðar Sveinssonar, er íslenska sauðkindin tilvalin í slíkt embætti.

„Í Þýsku Bundes-ligunni er Kölnar-liðið með lukkudýr, sem er eitt stykki geit! Hún mætir á alla heimaleiki og útileiki líka. Því er ekkert vitlaust að við myndum notast við íslensku sauðkindina, í fánalitunum jafnvel, það gæti ekki klikkað!“ sagði Sigurður grafalvarlegur í bragði. Á bloggsíðu íþróttafréttamannsins Henrys Birgis Gunnarssonar er stungið upp á leikaranum Pétri Jóhanni Sigfússyni sem lukkudýri landsliðsins. Hann segist þó sjálfur ekki vel til þess fallinn. „Ég held ég myndi reyna að komast undan því með hagsmuni liðsins í huga. Ólukkan hefur nefnilega loðað við mig í íþróttum, því miður,“ sagði Pétur Jóhann að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert