Fiskurinn óunninn úr landi

Reuters

Samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu hefur útflutningur á óunninni ýsu aukist um 32 prósent á fyrstu fjórum mánuðum fiskveiðiársins, samanborið við sama tíma í fyrra. Útflutningur á þorski hefur aukist um þrettán prósent á sama tímabili.

„Það eru auðvitað stórmerkileg tíðindi að á sama tíma og þorskkvótinn hefur verið skorinn niður um þrjátíu prósent og fiskvinnslur segja upp fólki um allt land vegna hráefnisskorts, séu menn að flytja út meira af þorski og ýsu nú en í fyrra.“ Þetta segir Gunnar Bragi Guðmundsson, formaður Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda.

Vöruðu við afleiðingunum

Sjávarútvegsráðherra ákvað að fella niður álag á óvigtaðan og óunninn fisk 1. september í fyrra. Álagið fól í sér að aukalega dróst frá kvóta útgerða, sem fluttu fiskinn óunninn úr landi. Að sögn Gunnars Braga bentu þá Samtök fiskvinnslu án útgerðar á að það myndi leiða til stórfelldrar aukningar á útflutningi óunnins fisks með hörmulegum afleiðingum fyrir fiskvinnslufólk.

„Staðan nú er verri en verstu spár gerðu ráð fyrir. Útlendingarnir geta nú keypt fisk án kvótaálags og hafa þeir gengið beint í ýsuna og aukið innflutning sinn á fiskinum um rúm þrjátíu prósent. Þetta er hráefnið sem við vonuðum að myndi vega upp kvótaskerðinguna í þorskinum. Við erum búnir að biðja um að fá tækifæri til að bjóða í þetta hráefni en höfum ekki fengið.“

Aflinn vigtaður erlendis

Athygli vekur að útflutningur á óvigtuðum óunnum afla eykst mikið, en útflutningur á vigtuðum óunnum fiski minnkar töluvert. Gunnar Bragi segir afla rýrna á leiðinni á markað og það sé hugsanlega ástæða þess að menn kjósi að senda aflann óvigtaðan úr landi.

„Sama magn af fiski er einfaldlega léttara þegar það er komið út, en það er sú þyngdartala sem er notuð til að draga frá kvóta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert