Í mál vegna þriðjungs af ljósritunarvél

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt fyrirtæki til að greiða öðru fyrirtæki 19 þúsund krónur fyrir þriðjungshlut í ljósritunarvél. Fyrirtækin keyptu ljósritunarvélina upphaflega saman ásamt þriðja fyrirtækinu en öll leigðu þau aðstöðu í sama húsinu í Kópavogi. Fyrirtækið, sem stefnt var, þarf einnig að greiða 100 þúsund krónur í málskostnað.

Fyrirtækið sem höfðaði málið, lagði upphaflega til vélina, sem stóð í sameign hússins. Hin fyrirtækin tvö keyptu þriðjungs hlut í vélinni hvort. Í mars á síðasta ári sendi fyrirtækið meðeigendunum tölvubréf þar sem fram kom að vélin væri biluð og fyrirtækið hefði ekki hug á því að eiga hana áfram.

Fyrirtækið sem stefnt var sagðist reiðubúið til að greiða 30.000 krónur fyrir vélina þannig að hin fyrirtækin tvö fengju 15.000 krónur hvort í sinn hlut. Þetta var samþykkt. Fyrirtækið greiddi hins vegar öðru hinna fyrirtækjanna ekki umrædda upphæð og sagði, að það skuldaði sér hærri upphæð vegna annars máls.

Þetta féllst fyrirtækið ekki á og höfðaði mál. Héraðsdómur féllst á kröfuna og segir að ekki sé hægt að taka til greina kröfu um skuldajöfnuð. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert