Fengu nýsköpunarverðlaun forseta Íslands

Anna Óskarsdóttir og Tinna Ósk Þórarinsdóttir ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni, …
Anna Óskarsdóttir og Tinna Ósk Þórarinsdóttir ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, og Hans Kr. Guðmundssyni, forstöðumanni Rannís. Árvakur/Kristinn

Arna Óskarsdóttir og Tinna Ósk Þórarinsdóttir fengu í dag nýsköpunarverðlaun forseta Íslands fyrir rafskautanet sem nýst gæti einstaklingum, sem eru lamaðir fyrir neðan háls, til að öðlast meiri hreyfigetu í fingrum með raförvun.

Búnar voru til frumgerðir að rafskautanetum í formi hanska sem einstaklingur gæti komið sjálfur á höndina og tekið af án hjálpar. Slíkt tæki myndi auka mjög sjálfstæði og lífsgæði þverlamaðra með skaða við hálshryggjarliði.

Í hvern hanska er komið fyrir fjölda rafskauta. Ákveðin fylki rafskauta eru síðan virkjuð til að örva þá vöðvahópa sem þarf til að ná fram tilætluðum griphreyfingum. Þessi aðferð er nýjung, en hingað til hefur verið notast við nokkur sjálflímandi rafskaut sem límd eru á valda staði á hendinni.

Fram kom í viðtali við  Tinnu Ósk í Morgunblaðinu í dag, að hugmyndin að verkefninu kviknaði út frá reynslu Haraldar Sigþórssonar sem er sjálfur þverlamaður. Hann átti tæki,. sem átti að þjóna sama markmiði en það hafði ekki reynst nógu vel. Hann vildi líka geta bjargað sér sjálfur í stað þess að vera upp á aðra kominn.

Hannaðar voru þrjár frumgerðir hanskans, sem Haraldur reyndi og gerði athugasemdir. Hanskarnir reyndust hafa hver sinn kost og galla en á endanum var Haraldur mjög ánægður með árangurinn og sér fram á að geta bjargað sér betur í framtíðinni og framkvæmt helstu athafnir.

Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands eru veitt árlega námsmönnum sem þykja hafa unnið framúrskarandi starf við úrlausn verkefnis sem styrkt var af Nýsköpunarsjóði námsmanna. Sjóðurinn var stofnaður árið 1992 til að útvega áhugasömum nemendum sumarvinnu við metnaðarfull og krefjandi rannsóknaverkefni. Alls bárust sjóðnum 252 umsóknir um styrki fyrir sumarið 2007. 106 verkefni hlutu styrk og voru þau unnin af 120 stúdentum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka