Brennisteinn frá Hellisheiði hættulegur?

Kristinn Sigurðsson, eigandi Tímadjásns, segir falla á silfur fyrr en …
Kristinn Sigurðsson, eigandi Tímadjásns, segir falla á silfur fyrr en áður. Árvakur/Eggert

„Brennisteinsvetni í andrúmslofti í nágrenni höfuðborgarinnar er orðið svo mikið að það getur hugsanlega valdið fólki með lungnasjúkdóma óþægindum, og jafnvel haft ófyrirséðar afleiðingar fyrir heilbrigt fólk til langs tíma litið.“ Þetta segir Sigurður Þór Sigurðarson, lungnalæknir og sérfræðingur í atvinnu- og umhverfissjúkdómum.

Frá því Hellisheiðarvirkjun var gangsett haustið 2006 hefur brennisteinsvetni í andrúmslofti í Reykjavík og nágrenni aukist talsvert, en umhverfissvið borgarinnar hóf að mæla magn brennisteinsvetnis fyrr á sama ári.

Að sögn Kristjáns Geirssonar, deildarstjóra hjá Umhverfisstofnun, er magn brennisteinsvetnis langt undir heilsufarsmörkum Aljóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO). „En magnið hefur aukist, og það þarf að fylgjast með því,“ segir Kristján.

„Það er alveg klárt að þótt magnið sé undir mörkum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar getur mengunin gert fólki með öndunarfærasjúkdóma erfitt fyrir við öndun,“ segir Sigurður Þór.

Hann bendir á að brennisteinsútblástur frá virkjunum valdi stöðugri mengun í langan tíma. „Og það getur hugsanlega haft uppsöfnuð áhrif á þá sem lifa í þessu umhverfi. Það getur verið að það taki allt að 10 til 20 ár að koma í ljós hvort mengunin hafi t.d. áhrif á þroska barna. En um það segja viðmiðunarmörkin ekkert, enda erfitt að spá fyrir um slíkt og þetta er ekki að fullu rannsakað.“

Merki um aukið magn brennisvetnis í andrúmsloftinu á höfuðborgarsvæðinu eru þegar farin að sjást mjög á silfurbúnaði.

„Þegar ég finn á brennisteinslyktinni að það er austanátt, veit ég að það þarf að hreinsa silfrið sólarhring seinna,“ segir Fríða Helgadóttir, starfsmaður úra- og skartgripaverslunarinnar Tímadjásns í Grímsbæ. Verslunin er í Fossvogsdal, en íbúar þar segjast oft finna brennisteinslykt í dalnum, sem berist með austanátt og hangi svo í loftinu í logni. „Það var ekki þannig áður en Hellisheiðarvirkjun var tekin í notkun.“

Aðspurð segir Fríða að hreinsuninni fylgi ekki mikill kostnaður. „En hún tekur þó töluverðan tíma, og kallar á aukna vinnu.“

Hringur fægður fyrir þremur vikum.
Hringur fægður fyrir þremur vikum.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert