,,Allt leit mjög vel út"

Skemmtiferðaskip á siglingu um Karíbahafið
Skemmtiferðaskip á siglingu um Karíbahafið Reuter

Benóný Jónsson, líffræðingur, fylltist grunsemdum þegar hann fékk símtal frá enskumælandi konu í gær, sem tilkynnti honum að hann hefði dottið í lukkupottinn og myndi njóta sérstakra kjara á vegum ferðaþjónustufyrirtækisins AStar Travel í Bandaríkjunum. Á daginn kom að um er að ræða nýja útfærslu af gamalkunnri svikamyllu sem lögreglan á Eskifirði varaði við í dag. 

Benóný sagði við mbl.is, að konan hefði kynnt sig sem Shannon Walker. Happ Benónýs átti að felast í því að fá siglingu um Karíbahafið og gistingu á Radisson SAS, alls fimmtán daga ferð, fyrir fjóra og greiða einungis 15% af andvirði ferðarinnar. Fyrirtæki hennar skyldi borga 85%. Samtals var verðgildi ferðarinnar 3000 dalir en hans hlutur væri hins vegar ekki nema 998 dalir og var þá allt innifalið nema flug til og frá Íslandi. Það sagðist hún geta útvegað á sérstökum vildarkjörum. Nefndi hún einnig að skipið sem sigla ætti með hópinn héti Regal princess. 
 
„Mig grunaði strax að þarna væri um nýja gerð af svikum að ræða en mig langaði að vita hversu vel þetta væri leikið hjá hröppunum,“ sagði Benóný. Eftir um það bil 15 mínútna samtal sagði konan Benóný að hún ætlaði að gefa honum samband við yfirmann sem myndi skrá ýmsar upplýsingar um hann. Nokkru síðar hljómaði önnur rödd í símanum, karlmaður sem einnig talaði ensku. Greinilegt var á máli beggja að þau voru bandarísk.

Karlmaðurinn tjáði Benóný að fyrirtækið sem þau ynnu hjá væri mjög virt ferðaþjónustufyrirtæki og væri það í samstarfi við Disney World, sem einnig tæki þátt í að greiða fyrir þetta sérstaka happ hans. Hann bætti síðan í og sagði Benóný að það væri hægt að fá sérstaka viðbótarferð til Las Vegas í fjóra daga – það yrði innan tilboðsins.
 

Fagmannleg síða
Á þessum tímapunkti bað maðurinn Benóný að færa sig að tölvunni því sig langaði til að sýna honum heimasíðu fyrirtækisins.  Leiddi hann Benóný í gegnum nokkrar síður og var þar að finna mynd af skipinu og lýsingu á ferðinni til Las Vegas. Leit allt mjög fagmannlega út.
 
Að þessu loknu hóf maðurinn að spyrja  hvernig Benóný hygðist greiða fyrir ferðina, hvort hann væri með Visa eða Eurocard. Sagði Benóný honum þá að hann gæfi aldrei upp neinar upplýsingar um reikningsnúmer í síma. Karlmaðurinn hélt samt sem áður áfram og vildi fá gildistíma kortsins. Sleit Benóný þá samtalinu með þeim orðum að hann ætlaði að hafna þessu kostaboði.
 

Oft fengið svindlbréf
Benóný segir að strax í byrjun hafi viðvörunarbjöllur byrjað að óma.  Hann hafi margsinnis fengið alls kyns kostaboð send með tölvupósti, allt frá fegrunaraðgerðum til tilkynninga um að hann ætti arfs að vænta frá Afríku, svo ekki væri talað um tilkynningar um milljarðavinninga í ýmiss konar lottói.

Þekktir svindlarar
Þess má geta að fyrirtækið AStar Travel er nefnt á vefnum ripoffreport.com og er fólk beðið að hafa samband og tilkynna um svik.

Hér er síða svindlaranna. Eins og sjá má lítur þetta mjög fagmannalega út.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert