Flaug með opnar dyr til Hornafjarðar

Hurð opnaðist á Cessna flugvél Flugfélagsins Ernis sem var á leið frá Reykjavík til Hornafjarðar. Fram kemur á fréttavefnum horni.is, að ekki tókst að loka hurðinni og var vélinni flogið með opnar dyrnar til Hornafjarðar. Engin hætta var talin á ferðum en farþegum var mjög brugðið.

Farþegi í vélinni sagði í samtali við horn.is að eftir um 40 mínútna flug hafi heyrst hvellur og hvissandi hljóð í kjölfarið og farþegarnir hafi í fyrstu ekki áttað sig á hvað var að gerast. Þá var flugvélin í 10.000 feta hæð. Fljótlega kom í ljós hvers kyns var og flugmennirnir sögðu, að engin hætta væri á ferðum og enginn myndi sogast út úr flugvélinni.

Annar flugmaðurinn fór aftur í vélina til að reyna að loka hurðinni en það tókst ekki. Vélinni var því flogið í 1000 feta hæð til Hornafjarðar þar sem hún lenti heilu og höldnu. Flugvélin hefði við eðlilegar kringumstæður átt eftir um 15 mínútna flug til Hornafjarðar þegar dyrnar opnuðust en flugið tók lengri tíma við þessar aðstæður.

Viðmælandi horns.is segir þetta hafa verið hræðilega lífsreynslu. Hún sé afar flughrædd og segist efast um að hún eigi aftur eftir að stíga um borð í flugvél eftir flugferðina í morgun. „Ég labba frekar ef ég þarf að fara í bæinn." 

Hún segist hafa setið fremst í vélinni og því fjærst hurðinni og segist ekki getað hugsað þá hugsun til enda hefði hún setið nálægt hurðinni þegar hún opnaðist.

Tveir Íslendingar voru í vélinni en aðrir farþegar voru bandarískt kvikmyndagerðarfólk. Þau voru skelkuð í byrjun að sögn farþegans en róuðust fljótt. Þeir sem sátu næst hurðinni voru klæddir í kuldafatnað og gátu dúðað sig og hópurinn var greinilega fljótlega farinn að upplifa atvikið sem ævintýri.

Viðmælandi horns.is vill taka fram að flugmennirnir hafi staðið sig mjög vel og hafi burgðist vel og rétt við. Þeir hafi verið yfirvegaðir allan tímann og upplýst farþega um hvað var á seyði og að engin hætta væri á ferðum. Farþegunum var boðið að hafa samband við flugfélagið og fá hjálp við að vinna úr þessari lífsreynslu.

Horn.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert