Hafrannsóknarskipin enn í höfn

Loðnuskip að veiðum í betri tíð.
Loðnuskip að veiðum í betri tíð. Árvakur/ Rax

Hafrannsóknarskipin Bjarni Sæmundsson og Árni Friðriksson liggja enn við bryggju í Reykjavík en samkvæmt upplýsingum Hafrannsóknarstofnunarinnar er verið að gera skipin klár til loðnuleitar. Árni Friðriksson mun fara til loðnuleitar með suðuströndinni á sunnudag og Bjarni Sæmundsson mun fara vestur á þriðjudag. Mun hann fyrst fara í loðnuleit úti fyrir Vestjörðum  en þaðan í togararall á Norðurmiðunum.

Samkvæmt upplýsingum Þorsteins Sigurðssonar, sviðstjóra hjá Hafrannsóknarstofnuninni, er gert ráð fyrir að Árni verði við loðnuleit fram að páskum en að loðnuleit Bjarna standi í tvo sólarhringa. Það mun þó fara eftir staðsetningu ísrandarinnar við Vesturbungu.

Áhöfnin á Bjarna mun síðan áfram fylgjast með loðnunni í mælitækjum en samkvæmt upplýsingum Þorsteins er ekki talið forsvaranlegt að láta togararallið falla niður. „Það er verkefni sem við höfum unnið að í 23 ár," segir hann. „Auk þess teljum við nóg að leita að loðnunni á einu skipi sérstaklega ef veiðiskip verða að leita með okkur."

Þorsteinn segir ekki liggja fyrir  hvernig samvinnu við veiðiskip verði háttað en að haldinn verði fundur með sjómönnum og útgerðarmönnum um það mál í dag. „Þá munum við einnig ræða það sem við höfum verið að rífast um undanfarna daga en þó kannski aðallega í fjölmiðlum," sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert