Loðna finnst við Hjörleifshöfða

Hafrannsóknarskipið Árni Friðriksson, er við rannsóknir á suðausturlandi.
Hafrannsóknarskipið Árni Friðriksson, er við rannsóknir á suðausturlandi. mbl.is/Þorkell

Hafrannsóknarskipið Árni Friðriksson RE 200, er nú við loðnurannsóknir undan Suðausturlandi.  Að sögn Sveins Sveinbjörnssonar, leiðangursstjóra á Árna Friðrikssyni, er skipið komið í loðnu austan við Hjörleifshöfða.

„Við erum komnir í loðnu, u.þ.b 20 sjómílur austan við Hjörleifshöfða, þetta virðist vera fremsti hluti loðnugöngunnar við Suðurlandið," segir Sveinn.   Rannsóknarskipið var búið að vera þar í um klukkustund þegar blaðamaður mbl.is náði tali af Sveini sem sagði að engar mælingar væru byrjaðar þar sem þeir væru rétt að hefja rannsóknir.

„Loðnan liggur með sandinum, á frá 13 metra dýpi út á 20-30 dýpi.  Að öðru leyti get ég lítið sagt um þetta, og niðurstaðna er ekki að vænta fyrr en í fyrsta lagi seint í kvöld," sagði Sveinn.

Fleiri skip hafa verið við loðnuleit og segir Sveinn að ein þrjú skip séu að leita á Suðausturlandi og að þeir hafi fengið tilkynningu í nótt frá skipinu Ingunni, sem fann loðnu við Litla-Dýpi.  Sveinn segir að þetta sé svæði sem eigi eftir að skoða og að þeir muni ekki komast í það fyrr en eftir nokkra daga. 

Ákveðið var að stöðva loðnuveiðar þann 21. febrúar að tillögu Hafrannsóknarstofnunar vegna þess að minna hefur mælst af loðnu en gert var ráð fyrir.  Að sögn Sveins er verið að gera mælingar aftur til þess að athuga hvort eitthvað hafi bæst við frá því ákvörðunin um stöðvun veiða var tekin.  „Við erum að endurskoða og endurleita til þess að athuga hvort við finnum meira," sagði Sveinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert