Dómsmálaráðherra skipar nefnd til endurskoða vopnalög

Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra hefur skipað nefnd til að vinna að endurskoðun vopnalaga og þeirra reglugerða og reglna sem settar hafa verið á grundvelli laganna. Tíu ár eru liðin frá setningu gildandi vopnalaga.

Í nefndina hafa verið skipuð Pétur Guðgeirsson héraðsdómari, sem jafnframt hefur verið skipaður formaður hennar, Thelma Þórðardóttir lögfræðingur, tilnefnd af ríkislögreglustjóra, Ólafur Þ. Hauksson lögreglustjóri, tilnefndur af Lögreglustjórafélagi Íslands, Dagmar Sigurðardóttir lögfræðingur, tilnefnd af Landhelgisgæslu Íslands, Ívar Erlendsson, tilnefndur af Skotveiðifélagi Íslands, og Jón Sigurður Ólason, tilnefndur af Skotíþróttasambandi Íslands.

Í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu kemur fram að síðan lögin voru sett fyrir tíu árum hefur reynt á ýmis atriði við túlkun laganna, tækni hefur fleygt fram og þjóðfélagið tekið breytingum. Jafnframt hefur alþjóðlegt samstarf á þessu sviði aukist. Af þessum sökum telur ráðherra tímabært að endurskoða vopnalögin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert