„Kennarar koma vonandi til baka"

Júlíus Vífill Ingvarsson.
Júlíus Vífill Ingvarsson.

Stefna ber að því að jafna laun kennara við laun annarra háskólamanna í sambærilegum störfum. Þetta var meðal þess sem fram kom í framsögu Júlíusar Vífils Ingvarssonar, formanns menntaráðs, á samráðsfundi foreldra og borgaryfirvalda í gær sem haldinn var undir yfirskriftinni „Mönnun grunnskólanna – flótti úr kennarastétt?“

Í samtali við Morgunblaðið segir Júlíus ljóst að menn verði að horfa á myndina með nýjum gleraugum. „Ef við ætlum að nota gömlu gleraugun þá mun ekki fara vel og skólastarfið mun ekki vaxa og dafna sem skyldi,“ segir Júlíus og tekur fram að mikilvægt sé að sporna við þeim kennaraskorti sem vart hafi orðið í grunnskólum borgarinnar þennan vetur. Aðspurður segist Júlíus nokkuð bjartsýnn á komandi kjaraviðræður þar sem nálgun samningsaðila sé með nýjum hætti. „Undirbúningur hefur falist í því að leita að sameiginlegum markmiðum sem síðan er grunnur að viðræðum. Þetta eru nýjar leiðir sem ég bind vonir við.“

Aðspurður segir Júlíus ljóst að eigi að tryggja eðlilega endurnýjun í kennarastéttinni þurfi á komandi árum að útskrifa fleiri kennaramenntaða einstaklinga auk þess sem stuðla þurfi að því að fleiri nýútskrifaðir kennarar leggi kennsluna fyrir sig, en Júlíus bendir á að kennaramenntunin þyki góð menntun sem nýtist í öðrum störfum líka. Bendir hann jafnframt á að auk þess að bæta kjör kennara þurfi ekki síður að vinna að því að efla ímynd kennarastarfsins. Útilokar hann ekki að Reykjavíkurborg komi að slíkri ímyndarvinnu, enda sé það í þágu menntunar barna í borginni.

Í samtali við Ragnar Þorsteinsson, fræðslustjóra í Reykjavík, segir hann stjórnendur hafa áhyggjur af því hversu erfiðlega hafi gengið að manna stöður við grunnskólana í vetur. „Það hefur sjaldan verið verra ástand í grunnskólum borgarinnar. Menn hafa þannig haldið uppi þjónustu með lágmarksmönnun og stundum vanmönnun. En það vonandi horfir til betri vegar nú þegar líður að kjarasamningum, vegna þess að það virðist vera gott hljóð í fólki,“ segir Ragnar. Aðspurður bendir hann á að Reykjavíkurborg muni þurfa um 50 nýja kennara til starfa á næsta skólaári. Tekur hann fram að reynslan sýni að um 75% hvers útskriftarárgangs skili sér inn í kennslu. „Kennarar hafa hins vegar að undanförnu horfið til annarra og mun betur launaðra starfa í þenslunni sem ríkt hefur, en vonandi koma menn til baka ef kjörin lagast.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert