Kristján: Ástandið á Reykjanesbraut áhyggjuefni

Kristján Möller.
Kristján Möller.

Kristján L. Möller samgönguráðherra segir það áhyggjuefni að framkvæmdir við tvöföldun Reykjanesbrautar hafi stöðvast. „Auðvitað er þetta mikið áhyggjuefni, og ég tala nú ekki um á þessum árstíma,“ segir Kristján í samtali við mbl.is.

Kristján segir að Vegagerðin vinni hörðum höndum að því að útbúa ný útboðsgögn. „Það var auðvitað svekkelsi að þess þyrfti, vegna þess að það tefur verkið.“ 

Í gær voru tveir fluttir á slysadeild þegar tvær bifreiðar rákust saman við Vogaafleggjarann á Reykjanesbraut. Vegurinn lokaðist í rúman klukkutíma á meðan unnið var að því að koma ökumönnunum til aðstoðar.

Lögreglan á Suðurnesjum hefur sagt að þær tafir sem hafa orðið á tvöföldun Reykjanesbrautar séu slæmar og bent á að talsverð hætta geti skapast við þær hjáleiðir sem nú eru á Reykjanesbrautinni, ekki síst vegna þeirrar vetrarfærðar sem hefur verið að undanförnu.

Þá er skemmst að minnast þess þegar lögreglan varð að loka Reykjanesbrautinni í síðasta mánuði í nokkrar klukkustundir vegna veðurs en fjölmargir bílar sátu fastir við þrengingarnar á veginum.

„Auðvitað hefur maður miklar áhyggjur af þessu eftir að verktakinn sagði sig frá verkinu og það náðust ekki samningar um að klára. Þá fór þessi útboðsferill í gang, sem var nú reyndar byrjaður. En þeir [Vegagerðin] voru byrjaðir að undirbúa [útboð] ef til þess kæmi,“ segir Kristján og bendir á að það hafi gerst strax eftir að ljóst var hvert stefndi. 

Samkvæmt Vegagerðinni er stefnt að því að framkvæmdunum ljúki í haust. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert