Samgönguráðherra á fund bæjarstjórans í Kópavogi

Samgönguráðherra brást skjótt við brýningu bæjarstjórans í Kópavogi um að tímabært væri fyrir ráðherrann að koma í margboðaða heimsókn á bæjarskrifstofurnar í Kópavogi. Klukkan níu var ráðherrann mættur á skrifstofurnar. Þá var bæjarstjórinn reyndar á fundi en var snöggur að losa sig af honum.

Brýningin kom fram í stuttri grein eftir bæjarstjórann, Gunnar I. Birgisson, sem birtist í Morgunblaðinu í gær undir fyrirsögninni „Hvar ertu, Kristján?“

Þar sagði Gunnar m.a. að samgöngumál væru ofarlega á dagskrá í ört vaxandi bæjarfélagi. „Ég hlakka því mikið til boðaðrar heimsóknar Kristjáns L. Möllers samgönguráðherra hingað á bæjarskrifstofurnar í Kópavogi. Af henni hefur þó ekki orðið þessa níu mánuði sem hann hefur farið með æðstu stjórn vegamála. Þeir eru ófáir morgnarnir sem ég hef setið einn að rúnstykkjunum og sætabrauðinu eins og hryggbrotin mær með þeim afleiðingum sem sjá má á holdafari ljósmyndafyrirsætu ársins.“

Kristján lét ekki segja sér þetta tvisvar. „Ég var búinn að bíða alveg frá því við töluðum saman fyrst um að hann byði mér í heimsókn,“ segir Kristján. Heimsókn hefði a.m.k. tvisvar komið til tals, í annað skiptið í sextugsafmæli bæjarstjórans. Kristján sagðist ekki hafa viljað gerast boðflenna, heldur beðið eftir heimboði. „Þeir sem ætla að bjóða manni í heimsókn verða auðvitað að nefna stað og stund. Ég vissi ekkert hvar Gunnar vildi hitta mig. En svo las ég þetta eins og annað í Mogganum og dreif mig af stað og í heimsókn. Það voru að vísu engin rúnstykki en vínarbrauðið var. Þannig að Gunnar þarf ekki að sitja lengur sem hryggbrotin mær,“ sagði hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert